Enski boltinn

Mane-laust Liverpool-lið næstu sex vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane,
Sadio Mane, Vísir/Getty
Liverpool varð fyrir áfalli í þessu landsleikjahléi því meiðslin sem Sadio Mane varð fyrir í leik með landsliði Senegal um helgina eru alvarleg.

Mane mun missa af næstu sex vikum eftir að hafa tognað á læri í 2-0 sigri Senegal á Grænhöfðaeyjum.  Sky Sports segir frá og Liverpool staðfestir á Twitter.





Mane var tekinn af velli á 89. mínútu í Senegal-leiknum en Liverpool hefur nú staðfest alvarleika meiðslanna.

Mane byrjaði tímabilið mjög vel, skoraði meðal annars í þremur fyrstu deildarleikjunum, en síðan fór allt að ganga á afturfótunum hjá honum.

Hann missti af þremur leikjum, tveimur í deild og einum í deildabikar, eftir að hafa fengið rautt spjald í leik á móti Manchester City.

Mane kom aftur inn í liðið í ensku úrvalsdeildinni í 1-1 jafntefli við Newcastle í síðasta leiknum fyrir landsleikjahlé en nú verður langt í næsta leik hjá kappanum.

Sadio Mane skoraði 13 mörk fyrir Liverpool á síðustu leiktíð en þá missti hann af öllum janúarmánuði vegna Afríkukeppninnar og svo af síðustu sex vikunum vegna hnémeiðsla.

Það er ljóst að Livepool-liðið mun sakna Mane sem var besti leikmaður liðsins í fyrstu leikjum tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×