Enski boltinn

Hér ástæðan af hverju stuðningsmenn Liverpool hafa svona miklar áhyggjur af fjarveru Mane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane lék síðasta leik á móti Newcastle.
Sadio Mane lék síðasta leik á móti Newcastle. Vísir/Getty
Senegalinn Sadio Mane verður frá keppni næstu sex vikurnar vegna meiðsla og getur því ekkert hjálpað Liverpool-liðinu að komast aftur í gang eftir erfiðan septembermánuð.

Mane meiddist í landsliðsverkefni með Senegal og í dag kom í ljós að meiðslin eru það alvarleg að hann missir af meira en mánuði.

Stuðningsmenn Liverpool hafa miklar áhyggjur af þessu enda sýnir tölfræðin það að það munar miklu fyrir liðið hvort Mane spilar eða ekki.

Knattspyrnutölfræðisíðan Whoscored.com tók saman gengi Liverpool-liðsins frá komu Mane frá Southampton eftir því hvort Sadio Mane var í byrjunarliðinu eða ekki. Þessa tölfræði má sjá hér fyrir neðan.



Liverpool hefur þannig unnið 61 prósent leikja sem Sadio Mane hefur byrjað en aðeins 43 prósent leikjanna sem hann hefur ekki verið í byrjunarliðinu.

Það er líka mikill munur á markaskori liðsins en Liverpool er að skora 2,23 mörk í leik þar sem Sadio Mane byrjar en aðeins 1,57 mark að meðaltali þegar Mane byrjar ekki.

Sadio Mane byrjaði tímabilið frábærlega og skoraði meðal annars í þremur fyrstu deildarleikjum tímabilsins. Hann fékk síðan þriggja leikja bann eftir að hafa fengið rautt spjald á móti Manchester City og Liverpool-liðið hefur verið í tómu tjóni í leikjum sínum síðan.

Mane var kominn aftur inn í liðið í síðasta deildarleiknum fyrir landsleikjahléið en nú spilar hann ekki aftur með liðinu fyrr en seint í nóvember.

Liverpool þarf að fara að gefa í ef liðið ætlar að vera með í toppbaráttunni en liðið hefur tapað mörgum stigum á móti „litlu“ liðum ensku úrvalsdeildarinnar að undanförnu.  Fjarvera Mane eru því allt annað en góðar fréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×