Skoðun

Hvað er merkilegt og mikilvægt?

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
Fjölmiðlamenn vilja skiljanlega oftast beina kastljósinu að því sem við teljum að öðrum, helst sem flestum, þyki merkilegt eða mikilvægt. Því fleiri sem hafa áhuga á því sem við látum frá okkur, þeim mun auðveldara er að selja auglýsingar og kostanir og að sjálfsögðu skiptir það máli ef reka á fjölmiðil á frjálsum markaði. Neytendur stjórna því að stórum hluta ferðinni. Hvað viltu lesa? Hvað viltu horfa á? Hvað viltu hlusta á? Hvað þykir þér merkilegt og mikilvægt?

Þegar kemur að hlutfalli kynjanna sem viðmælendur í ljósvakamiðlum, þá hefur ýmislegt þokast í jafnréttisátt í almennri dagskrárgerð. Hins vegar er staðan enn ansi ójöfn í fréttum, jafnan 70/30 eða 80/20 körlum í vil. Að sjálfsögðu hefur verið bent á að karlar sitji einfaldlega oftar á valdastólum og þeir því oftar viðmælendur fréttamanna. En hvaða valdastóla er verið að tala um? Er verið að tala um völdin á heimilum? Í barnauppeldi? Í heilbrigðiskerfinu? Menntakerfinu? Menningu og listum? Góðgerðarsamtökum? Eða er kannski aðallega verið að tala um völd í fjármálum og stjórnmálum?

Stundum er talað um „kvenlæg“ og „karllæg“ gildi sem eins konar myndlíkingu ólíks gildismats. Kvenlægu gildin standi þannig fyrir hluti eins og samvinnu, þjónustu, samfélagsvitund o.s.frv. Karllægu gildin einkennist frekar af áræði, áhættusækni, einstaklingshyggju o.s.frv. Þessi gildi eru í mínum huga óháð kynjum, þó að það haldist oft í hendur við kynið. Þannig geti karlar vel aðhyllst kvenlæg gildi og konur karllæg gildi og þá getur sama manneskjan jafnvel haft hvor tveggja gildin að leiðarljósi.

Leiða má líkur að því að karllæg gildi hafi hingað til verið talin merkilegri og mikilvægari en þau kvenlægu og því sé karllægt efni líklegra til að komast í helstu fréttir ljósvakamiðla. Ef við höfum áhuga á því að breyta kynjahlutfalli í ljósvakamiðlum, þá tel ég að það verði ekki aðeins gert með þvinguðum aðgerðum eða látlausum talningum fjölmiðlamanna á kynjahlutfalli viðmælenda. Ég tel að við þurfum öll sem samfélag að velta því fyrir okkur hvort okkur þyki í raun karllæg og kvenlæg gildi jafn mikilvæg og merkileg.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.




Skoðun

Sjá meira


×