Viðskipti innlent

Breskur vogunarsjóður kaupir sex prósenta hlut í Vodafone

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Vodafone að Suðurlandsbraut.
Höfuðstöðvar Vodafone að Suðurlandsbraut. Aðsend/Vodafone
Breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners hefur keypt 6,05 prósenta hlut í Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone, að því er fram kemur í flöggunartilkynningu sem sjóðurinn sendi til Kauphallarinnar í kvöld.

Sjóðurinn hefur alls keypt 16,5 milljónir hluta í fjarskiptafélaginu, en miðað við núverandi gengi hlutabréfa félagsins má ætla að kaupverðið nemi allt að 1,1 milljarði króna.

Vogunarsjóðurinn er þar með kominn í hóp stærstu hluthafa Fjarskipta, en þar má einkum finna lífeyrissjóði auk Ursus, fjárfestingafélags Heiðars Guðjónssonar, stjórnarformanns Fjarskipta.

Nýverið var haft eftir Stuart Roden, stjórnarformanni Lansdowne, í breskum fjölmiðlum að sjóðurinn hefði í hyggju að fjárfesta í eignum hér á landi. Ástæðan væri meðal annars mikill vöxtur í ferðaþjónustunni.

„Við erum reiðubúnir til þess að fjárfesta á Íslandi þegar landið opnast,“ sagði hann og bætti við að Ísland hefði gengið í gegnum „ótrúleg umskipti“ á undanförnum árum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×