Fótbolti

Messi náði metinu en Suarez var fljótur að ná honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Luis Suarez.
Lionel Messi og Luis Suarez. Vísir/Getty
Liðsfélagarnir hjá Barcelona, Lionel Messi og Luis Suarez, deila nú metinu yfir flest skoruð mörk í Suður-Ameríku hluta undankeppni HM í fótbolta.

Barcelona-stjörnurnar mæta brosandi aftur til Katalóníu enda búnir að tryggja sínum þjóðum sæti á HM auk þess að næla sér í eitt met í leiðinni.

Lionel Messi byrjaði á því að bæta markametið með því að skora þrennu í 3-1 sigri Argentínumanna á Ekvador en Luis Suarez jafnaði við hann með því að skora tvisvar í seinni hálfleik í 4-2 sigri Úrúgvæ á Bólivíu.

Þeir félagar hafa nú báðir skorað 21 mark í undankeppni HM. Argentínumaðurinn Hernan Crespo átti áður metið (19 mörk) en Luis Suarez náði honum þegar hann skoraði sitt nítjánda mark fyrir ári síðan.







Það gekk hinsvegar ekkert hjá Suarez að komast einn í efsta sætið enda var hann ekki búinn að skora í undankeppninni síðan í október 2016.

Messi stakk sér síðan framúr þeim báðum þegar hann kom til bjargar eftir að Argentína lenti 1-0 undir í nótt í leik upp á líf eða dauða fyrir HM-drauma argentínsku þjóðarinnar. Þrenna Messi reddaði málunum og Argentína verður með okkur Íslendingum á HM næsta sumar.

Úrúgvæmaðurinn Edinson Cavani var hinsvegar markahæstur maðurinn í þessari undankeppni Suður-Ameríku riðilsins með 10 mörk.  Lionel Messi skoraði sjö mörk eins og Sílemaðurinn Alexis Sánchez og Ekvadormaðurinn Felipe Caicedo.

 



Lionel Messi og Luis Suarez.Vísir/Getty
Lionel Messi og Luis Suarez.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×