Lífið

Á greinilega von á góðu

Guðný Hrönn skrifar
Halla Tómasdóttir er ekkert svakalega mikið afmælisbarn að eigin sögn.
Halla Tómasdóttir er ekkert svakalega mikið afmælisbarn að eigin sögn. vísir/stefán

Halla Tómasdóttir, rekstrarhagfræðingur og fyrirlesari, á 49 ára afmæli í dag. Halla kveðst ekki vera mikið afmælisbarn þó að hún fagni vissulega hverju árinu sem líður. „Þetta verður alltaf betra. Og ég á fullt af góðum vinkonum sem segja mér að eftir fimmtugt verði lífið einfaldlega frábært. Mér finnst lífið mitt nú bara hafa verið gott hingað til, svo ég á greinilega von á góðu,“ segir hún og hlær. „Kannski held ég oftar upp á afmælið mitt þegar ég næ fimmtugu.“

Halla er stödd í Vilníus í Litháen á ráðstefnu. Hún stefnir á að vera komin heim í faðm fjölskyldunnar fyrir lok dags. „Ég næ vonandi heim áður en afmælisdagurinn er liðinn og þá fagna ég með eiginmanni mínum og börnum.“

„Það vill nú svo til að ég er oft á ferðinni á afmælisdaginn minn.“

„Núna var ég að halda fyrirlestur fyrir alþjóðlega forystusveit Ólympíuleikanna hérna í Vilníus og ég var í landsliðstreyjunni, enda þvílíkt stolt af strákunum okkar og þeirra frábæra árangri.“
Halla heldur því enga veislu í dag. „Síðast þegar ég hélt stóra afmælisveislu þá var það fertugsafmælið mitt og það var í vikunni sem Ísland upplifði efnahagshrunið. Þannig að ég veit ekki, það er kannski svolítið í það að ég þori að halda aðra afmælisveislu,“ grínast Halla og skellir upp úr.

„En ég mun alveg klárlega fagna fimmtugsafmælinu á næsta ári, þó að það sé ekki alveg ljóst hvernig ég geri það eða hvar. En það er auðvitað stór áfangi að lifa í hálfa öld, svo því ber að fagna.“

Að lokum, spurð út í það hvort hún óski sér einhvers sérstaks í afmælisgjöf þetta árið segir hún: „Nei, bara ómældrar ástar og samveru með fjölskyldunni. Það er það sem skiptir mestu máli.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.