Enski boltinn

Sir Alex handsalaði samning við Tottenham en gekk á bak orða sinna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sir Alex Ferguson lyfti þessum bikar 13 sinnum sem stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson lyfti þessum bikar 13 sinnum sem stjóri Manchester United. vísir/getty

Skoski knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson gerði Manchester United að stærsta félagi Englands og sigursælasta liði ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi en tveimur árum áður en hann tók við United var hann búinn að samþykkja að taka við Tottenham.

Þetta kemur fram í viðtali við Irving Scholar, fyrrverandi stjórnarformanns Tottenham, í The Sun en hann vildi fá Ferguson til starfa þegar Keith Burkinshaw sagði upp störfum árið 1984.

Ferguson var búinn að ná mögnuðum árangri með Aberdeen í Skotlandi á þessum tíma. Hann var búinn að vinna skosku deildina tvisvar sinnum, bikarinn í þrígang og leggja Real Madrid að velli í úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa árið 1983.

„Sannleikurinn er sá að ég var búinn að vera að tala við og reyna að semja við Sir Alex. Við ræddum lengi saman. Ég sagði honum að ég væri af gamla skólanum þar sem handaband þýðir að málið er komið í höfn. Það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum ganga á bak orða sinna sé búið að handsala eitthvað,“ segir Scholar.

Sir Alex hitti Scholar og annan stjórnarmann Tottenham rétt fyrir utan flugvöll í París þar sem Skotinn tók í höndina á stjórnarformanninum. Scholar var þá alveg klár á því að samningar væru í höfn.

Ferguson gekk á bak orða sinna og tók ekki við Tottenham. Þegar hann kom í enska boltann tveimur árum síðar tók hann við Manchester United og náði þar ótrúlegum árangri eins og allir vita.

„Hann sagði mér aldrei hvað gerðist. Ég hef mínar tilgátur en þetta skiptir ekki máli lengur. Ég var vonsvikinn. Hann tók tvö ár hjá Aberdeen til viðbótar,“ segir Irving Scholar.

Sir Alex Ferguson átti eftir að vinna skosku deildina einu sinni til viðbótar, bikarinn einu sinni og deildabikarinn sömuleiðis einu sinni með Aberdeen áður en hann tók við Manchester United.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.