Fótbolti

Hverju svaraði Heimir þegar að hann var spurður hvort Ísland kæmist á HM?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í fótbolta, var til viðtals í þættinum Þegar að Höddi hitti Heimi síðustu jól en þátturinn var sýndur 26. desember í fyrra. Í honum ræddi Hörður Magnússon ítarlega við Heimi um fótboltaferil hans og íslenska landsliðið.

Heimir varð á mánudagskvöldið fyrsti maðurinn til að stýra íslensku fótboltalandsliði í lokakeppni HM en strákarnir okkar verða á meðal þjóðanna 32 sem keppa á HM í Rússlandi á næsta ári.

Lokaspurningin í þættinum frá Herði var einföld: „Komumst við á HM í Rússlandi? Heimir hugsaði sig stuttlega um en gaf svo langt og ítarlegt svar. Það sem hann sagði fyrir jól hefur meira og minna allt staðist.

„Já, við komumst á HM.

Ég er svo viss um að 2017 verður betra ár fyrir íslensku leikmennina heldur en 2016 eftir EM. Það var mjög erfitt fyrir strákana að fara beint eftir Evrópumótið inn í undirbúningstímabil og þaðan inn í tímabilið.

Það voru margir sem áttu í erfiðleikum með að komast í sín lið og ef ég á að vera heiðarlegur eru fáir íslenskir leikmenn sem eru búnir að blómstra eftir EM-sumarið. Það er rétt svo Gylfi núna og Emil og Jón Daði í byrjun tímabils.

Ég er alveg viss um það, að eftir jólafrí og eftir að skandinavarnir eru búnir að taka sitt frí sé ég íslensku leikmennina spila miklu betur heldur en þeir eru búnir að gera hingað til með sínum liðum og landsliðið mun njóta þessa.

Ef við höldumst heilir og erum með allan okkar mannskap þá er ég sannfærður um að við förum á HM. Ég veit líka að metnaðurinn er svo mikill hjá þessum strákum. Það er meiri áskorun að komast á HM og ég veit að þeir vilja vera fyrsta íslenska landsliðið sem kemst á lokakeppni heimsmeistaramóts.

Það yrði svo ofboðsleg rúsína og gaman fyrir þessa greifa að að spila í Rússlandi 2018 í heimsmeistarakeppninni,“ sagði Heimir Hallgrímsson.

Viðtalsbrotið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×