Innlent

Svarar Steingrími fullum hálsi: „Við tölum ekki um að flokkar séu fatlaðir“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins lét Steingrím heyra það á framboðsfundi í Menntaskólanum á Akureyri.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins lét Steingrím heyra það á framboðsfundi í Menntaskólanum á Akureyri. vísir/stefán

Á frambjóðendafundi Menntaskólans á Akureyri sagði Steingrímur J. Sigfússon, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi að Sjálfstæðisflokkurinn væri fatlaður. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins svaraði Steingrími fullum hálsi og uppskar mikið lófaklapp menntskælinga.

„Ég ætla nú fyrst að frábiðja mér því að pólitíkusar tali með þeim hætti að líkja einhverjum sem þeim líkar ekki við sem fatlaða einstaklinga. Það er fáránlegt. Við tölum ekki um að flokkar séu fatlaðir. Talandi um ódýra pólitík,“ sagði Áslaug á fundinum.

„Svona ummæli og fordómar viðgangast ef enginn mótmælir þeim. Við þurfum auðvitað að ganga fram með góðu fordæmi,“ segir Áslaug í samtali við Vísi en hún bætir við að mönnum geti að sjálfsögðu orðið á en að sér hafi fundist mikilvægt að svara ummælum sem þessum, sérstaklega á fundi ungmenna.

„Ég bara veit það að „fatlaður“ eru of oft notað sem niðrandi orð og mér finnst það miður. Það er leiðinlegt að þeim sé stillt upp þannig að þau séu lélegri eða verri eins og þetta var sett upp,“ segir Áslaug sem segir málið standa sér nærri þar sem hún eigi fatlaða systur.

„Mér finnst bara alltaf mjög mikilvægt að þegar þetta kemur upp - af því þetta stendur mér nærri - að svara þessu svo þetta viðgangist ekki og verði ekki talinn eðlilegur talsmáti af því það er nú bara svoleiðis að orðið fatlaður á ekki að vera notað sem neikvætt eða niðrandi orð, sama um hvað er talað,“ segir Áslaug að endingu.

Hér að neðan er hægt að sjá myndskeið af ummælunum.

Uppfært: Blaðamanni hefur verið bent á að Steingrímur hafi beðist afsökunar á ummælum sínum seinna á sama fundi. Því skal haldið til haga hér. Afsökunarbeiðni Steingríms hljóðaði svo: 

„Já, góðir fundarmenn, Það er sjálfsagt að biðjast velvirðingar á því hafi ég komið þannig út að ég væri að líkja Sjálfstæðisflokknum á einhvern hátt við einhvers konar líkamlega, andlega fötlun. Það er ekki vel orðað.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira