Innlent

Segir Laxárdeilu vonandi lokið með bættri virkjun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðmundur Stefánsson, stöðvarstjóri Laxárvirkjunar.
Guðmundur Stefánsson, stöðvarstjóri Laxárvirkjunar. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Áratuga rekstrarvandræði Laxárvirkjunar í Þingeyjarsýslum virðast nú fyrir bí eftir viðamiklar endurbætur á virkjuninni. Landsvirkjunarmenn vonast til að jafnframt sé hálfrar aldar Laxárdeilu lokið en deilan markaði þáttaskil í náttúruvernd á Íslandi. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Guðmund Stefánsson, stöðvarstjóra Laxárvirkjunar. 

Það var vegna áforma um risastíflu þvert yfir Laxárgljúfur sem bændur í Þingeyjarsýslum sprengdu litla stíflu í Miðkvísl efst í Laxá sumarið 1970 en stóra stíflan hefði fært allt undirlendi Laxárdals á kaf. Náttúruverndarmenn höfðu fullan sigur en ráðamenn Laxárvirkjunar sátu eftir með ófullgerða virkjun án stíflu, Laxárstöð þrjú, en gátu nýtt eldri stíflu.

Nýja stíflan í Laxárgljúfri er jafnhá þeirri gömlu. Áformin umdeildu fyrir hálfri öld gerðu ráð fyrir yfir fimmtíu metra hárri stíflu þvert fyrir gljúfrið, sem hefði fært mestallt undirlendi Laxárdals á kaf.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Gamla stíflan var bara orðin það veik að hún hélt ekki og flæddi yfir hana. Ef það kom smávorflóð í Laxá þá flæddi yfir stífluna og niður öll gljúfur,“ segir Guðmundur. 

Inni í fjallinu má sjá auða hvelfingu þar sem seinni aflvél Laxárvirkjunar þrjú átti að koma, og rekstur þeirrar einu sem tekin var í gagnið var stöðugt til vandræða vegna sandburðar og ísreks. Þrívegis hefur þurft að skipta um vatnshjól og þess á milli að gera við vélina nánast árlega. 

„Gríðarleg rekstrarvandkvæði. Það var bæði ísinn, - hann gekk beint inn í stöðina, - það var bara opið inn í göngin og alla leið niður.  Og síðan sandurinn, hann skreið eftir botninum og skilaði sér niður í vél. Það var bara eins og það væri verið að pússa vélina hér alla daga,“ segir stöðvarstjórinn.

Hluti stöðvarhvelfingar Laxárvirkjunar 3 stendur nú auður án aflvélar sem minnisvarði um áform sem ekki rættust vegna kröftugra mótmæla.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
En nú hefur virkjunin bæklaða gengið í gegnum viðamikla endurnýjun, sem tók tæpt ár. Ný stífla var reist en jafnhá, inntakslónið dýpkað, og sandgildrum og ísskolunarbúnaði komið fyrir. Skurður tekur við sandburðinum og skilar honum út í hinn náttúrulega farveg árinnar. 

Stöðvarstjórinn segir reynsluna fyrstu mánuðina lofa góðu. Þetta sé sískolun þar sem sandurinn gangi framhjá stöðinni í gegnum sjálfskolunarbúnað sem skili honum niður í gilin.

Séð niður Laxárgljúfur til Aðaldals. Endurbætur á Laxárvirkjun voru unnar í samstarfi við landeigendur ofan og neðan virkjunar.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Guðmundur segir Landsvirkjun hafa haft náið samstarf um verkefnið við heimaaðila, ofan og neðan Laxár, og góð sátt náðst. En hafa þá Laxárdeilur fyrri áratuga, - og seinni, - þar með endanlega verið settar niður?

„Ég vona það. Ég held að það sé kannski raunin. Allir þeir sem hér eru nú, starfa og vinna í Laxá, og í nágrenni Laxárstöðvar, hafa verið afskaplega sáttir og samstíga með þetta,“ svarar stöðvarstjóri Laxárvirkjunar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Umtalsverðar skemmdir á Laxárvirkjun

Laxárvirkjun tvö í Suður-Þingeyjarsýslu hefur verið stöðvuð eftir að grjót komst inn í vatnshjól virkjunarinnar og olli umtalsverðum skemmdum. Landsvirkjun segir að verið sé að meta ástandið og ákvörðun um viðgerð verður tekin í framhaldi en ekki sé ljóst hvenær stöðin kemst aftur í rekstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×