Innlent

Íslenskir kotruspilarar ná Evrópumeistaratitli

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá leik Þjóðverja og Norðmanna á EM í kotru um helgina.
Frá leik Þjóðverja og Norðmanna á EM í kotru um helgina. Vísir/Ernir

Róbert Lagerman og Ingi Tandri Traustason urðu um helgina Evrópumeistarar í tvíkeppni í kotru en Evrópumeistaramótið var að þessu sinni haldið á Íslandi dagana 5.-8. október. Róbert segir kotruna í stórsókn og næstu skref vera að fjölga spilurum og breiða út fagnaðarerindið.

Þegar Fréttablaðið náði tali af Róbert var hann enn í sigurvímu eftir að hafa unnið Evrópumeistaratitilinn í tvíkeppni. Í þeirri grein spila tveir og tveir saman á tveimur borðum.

Þessa helgi var einnig haldin landsliðakeppni þar sem spilað var samtímis á fjórum borðum en einnig einstaklingskeppni. „Þetta var sannkölluð kotruveisla hér á landi,“ segir Róbert.

Róbert Lagerman, Evrópumeistari í tvíkeppni í kotru.

Kotra er tiltölulega ný hér á landi sem íþróttagrein þrátt fyrir að fjöldi manna hafi spilað þetta í heimahúsum og á krám landsins.

Kotrusambandið var stofnað árið 2011 og síðan þá hefur kotran verið í framför og við eignast frambærilega spilara á evrópskan mælikvarða.

„Þetta er ekkert ósvipað skák,“ segir Róbert, sem einnig er FIDE-meistari í skák.

„Með mikilli æfingu og stúderingum með aðstoð kotruheila, sem virka eins og skáktölvur, verður þú betri og betri í þessum leik. Í þessu felst einnig mikill líkindareikningur og því byggist spilið að hluta til mikið á líkindareikningi.“

Róbert segir auðvitað að einhverju leyti heppni koma við sögu þegar þú kastar teningum í kotru. Hins vegar jafni það sig út. Á ­endanum sé það alltaf þannig að sá sem er bestur vinni leikinn. Til að lágmarka vægi heppninnar í teningaköstum eru oft spilaðir margir leikir. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira