Erlent

„Hvíta ekkjan“ drepin í drónaárás

Atli Ísleifsson skrifar
Sally Jones fór ásamt syni sínum til Sýrlands árið 2013.
Sally Jones fór ásamt syni sínum til Sýrlands árið 2013.
Breski hryðjuverkamaðurinn Sally-Anne Jones, sem gengið hefur undir nafninu „Hvíta ekkjan“, er sögð hafa verið drepin í drónaárás Bandaríkjahers í júní síðastliðinn.

Breskir fjölmiðlar greindu frá þessu í morgun, en bresk yfirvöld hafa enn ekki staðfest fréttirnar.

Jones, sem hafði enga fyrri reynslu af hernaði, gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin ISIS eftir að hafa ferðast til Sýrlands árið 2013. Hún hafði starfað meðal annars sem tónlistarmaður í pönksveit.

Hin fimmtuga Jones var áberandi á áróðurssíðum ISIS og var eitt helsta hlutverk hennar innan samtakanna að fá stúlkur frá Vesturlöndum til að ganga til liðs við samtökin.

Jones gekk að eiga tölvuhakkarann og liðsmann ISIS, Junaid Husain, eftir að hún fluttist til Sýrlands, en Husain var drepinn í drónaárás árið 2015.

Jones flúði á sínum tíma með syni sínum, Jojo, til Sýrlands, en drengurinn var meðal annars látinn taka þátt í aftökumyndböndum ISIS-samtakanna. Talið er að Jojo kunni einnig að hafa látið lífið í umræddri drónaárás sem var gerð á landamærum Sýrlands og Íraks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×