Handbolti

Tía Hreiðars Levý dugði ekki til sigurs: „Hann á svo mörg líf í boltanum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Gróttu í Olís-deild karla í handbolta, fór á kostum í leik liðsins á móti Stjörnunni í fimmtu umferð deildarinnar.

Landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi hélt Gróttu á floti í leiknum með 23 vörðum skotum og 49 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hann fékk tíu í heildareinkunn fyrir frammistöðu sína hjá HB Statz.

Því miður dugði frammistaða hans ekki til sigurs því Stjarnan vann með einu marki. Grótta er enn í leit að fyrsta sigrinum en liðið er á botni deildarinnar.

„Hann er væntanlega með næst bestu tölfræðina af öllum sem eru að spila hérna heima. Mér finnst hann eiga svo mörg líf. Hann var einhvernveginn að deyja í þessu en nú er hann kominn aftur,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, í þættinum á þriðjudagskvöldið.

Það er svo sannarlega rétt hjá Gunnari því Hreiðar er í öðru sæti á styrkleikalista HB Statz með einkunn upp á 8,52 en efstur er Björgvin Páll Gústavsson með 9,36.

Nú styttist í Evrópumótið og hlýtur Hreiðar að gera tilkall til endurkomu í landsliðið miðað við hvernig hann er að spila, eða hvað? Jóhann Gunnar Einarsson er allvega ánægður með metnaðinn í markverðinum.

„Hann er byrjaður að að vinna sem fasteignasali og maður hélt að metnaðurinn væri ekki alveg í handboltanum en svo heyrði maður eitthvað viðtal og hann er alveg klár,“ sagði Jóhann Gunnar.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira