Viðskipti innlent

Skotsilfur Markaðarins: Vara fjárfesta við pólitískri áhættu

Ritstjórn Markaðarins skrifar
Samkvæmt skoðanakönnunum eru líkur á því að Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, taki sæti á Alþingi eftir kosningar. Ágúst Ólafur, sem sat síðast á þingi á árunum 2003 til 2009, á 5,69 prósenta hlut í vefmiðlinum Kjarnanum og hefur auk þess setið í ráðgjafaráði miðilsins. Hann hlýtur nú að vera farinn að huga að því að selja hlut sinn. Annar frambjóðandi, Píratinn Smári McCarthy, á jafnframt 1,6 prósenta hlut í útgáfufélagi Stundarinnar. Fregnir herma að hann leiti að mögulegum kaupanda að hlutnum, en sjálfur hefur hann sagt með öllu óeðlilegt að þingmaður eigi hlut í fjölmiðli.

Vara fjárfesta við

Það er kunnara en frá þurfi að segja að fjárfestar hafa miklar áhyggjur af þeirri pólitísku óvissu sem er uppi vegna falls ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og boðaðra kosninga til Alþingis í lok mánaðarins. Hafa sumir haft á orði að pólitísk áhætta vegi nú þyngst á metunum þegar erlendir fjárfestar líta til áhættu af því að eiga viðskipti hér á landi. Athygli vakti í nýuppfærðri verðbréfalýsingu fjárfestingabankans Kviku, sem Ármann Þorvaldsson stýrir, að bankinn sá sérstaka ástæðu til þess að vara fjárfesta við því að atburðarás undanfarinna vikna í íslenskum stjórnmálum fæli í sér „ákveðna pólitíska áhættu“.



Jónas R. Gunnarsson hefur verið framkvæmdastjóri eignastýringar Virðingar.
Jónas til Júpíters

Margir fyrrverandi starfsmenn Virðingar hafa núna tekið til starfa hjá Kviku en bankinn festi sem kunnugt er kaup á verðbréfafyrirtækinu fyrr á árinu. Á meðal þeirra er Jónas R. Gunnarsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri eignastýringar Virðingar, en hann mun fara yfir til sjóðastýringarfyrirtækisins Júpíters, dótturfélags Kviku banka.

Skotsilfrið er óvægin innsýn inn í bakherbergi viðskipta og atvinnulífs á landinu. Pistillinn birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu á miðvikudögum.

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×