Sport

Jones vildi vera vondi kallinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jones með Zeke Elliott, hlaupara Cowboys.
Jones með Zeke Elliott, hlaupara Cowboys. vísir/getty

Það vakti gríðarlega athygli þegar Jerry Jones, eigandi NFL-liðsins Dallas Cowboys, ákvað að fara eftir fyrirmælum Donalds Trump Bandaríkjaforseta og banna leikmönnum sínum að fara niður á hné er þjóðsöngurinn er spilaður fyrir leiki.

Jones tók sjálfur þátt í mótmælum með leikmönnum sínum þann 25. september. Þá héldust þeir í hendur og fóru niður á hné.

Eðlilega eru efasemdir um hvort Jones megi yfir höfuð banna leikmönnum sínum að mótmæla á þennan friðsæla hátt.

Á fundi með leikmönnum og þjálfurum Cowboys á Jones að hafa sagt við leikmenn að hann hafi gert þetta svo hann væri vondi kallinn og öll athygli færi af leikmönnum liðsins.

Hann biðlaði til leikmanna að reyna að líta á heildarmyndina þar sem þessi mótmæli hafa áhrif á styrktaraðila og einnig hefur sjónvarpsáhorf minnkað. Það er að hluta til rakið beint til mótmælanna enda er þjóðin klofin í afstöðu sinni til mótmælanna.

Jones ætlast engu að síður til þess að leikmenn standi í þjóðsöngnum og verður að koma í ljós hvort þeir hlýði og hvort Jones láti verða af því að meina leikmönnum að spila sem standa ekki.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.