Innlent

Einn í haldi grunaður um tilraun til manndráps

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað á vettvangi vegna árásarinnar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað á vettvangi vegna árásarinnar. Vísir/Sindri Reyr Einarsson
Einn er í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa stungið mann með hnífi í íbúð í Fellunum í Breiðholti þriðjudaginn 3. október. Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við Vísi.

Við rannsókn málsins hafa alls þrír verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins miðvikudaginn 4. október en hafa verið látnir lausir. Sá þriðji var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til fjögurra vikna í gær, grunaður um árásina. Greint var fyrst frá ákvörðuninni um að úrskurða manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald á vef Ríkisútvarpsins.



Mennirnir tveir sem voru fyrst voru handteknir að kvöldi árásarinnar og daginn eftir en sá þriðji var handtekinn siðar.

Grímur segir fólk hafa verið í íbúðinni í Æsufelli þegar árásin átti sér stað en það hafi allt verið yfirheyrt. Hann sagðist ekki geta upplýst hversu margir voru í íbúðinni þegar árásin átti sér stað en verið sé að rannsaka hverjar ástæðurnar geta hafa verið fyrir þessum verknaði.

Maðurinn sem fyrir árásinni varð var stunginn í kviðarholið en árásinni hefur verið lýst sem töluverðri atlögu. Hann gekkst undir aðgerð á Landspítalanum en Grímur segir að manninum heilsist ágætlega í dag.

Er árásin rannsökuð sem tilraun til manndráps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×