Fótbolti

Jóhann Berg í viðtali á Sky Sport um afrek íslenska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson fagnar marki sínu á móti Kósóvó.
Jóhann Berg Guðmundsson fagnar marki sínu á móti Kósóvó. Vísir/Eyþór

Jóhann Berg Guðmundsson skoraði tvö gríðarlega mikilvæg mörk í síðustu tveimur leikjum Íslands í undankeppni HM í Rússlandi.

Jóhann Berg hafði ekki skorað í 34 landsleikjum í röð þegar hann kom Íslandi í 1-0 úti í Tyrklandi og gulltryggði síðan sigurinn með seinna markinu á móti Kósóvó á mánudagskvöldið.

Jóhann Berg er nú kominn aftur til Burnley þar sem framundan eru leikir í ensku úrvalsdeildinni.

Sky Sports fékk hinsvegar viðtal við okkar mann og hefur nú birt það á heimasíðu sinni.

„Það er ótrúlegt að við séum komnir inn á HM og það var líka sérstakt að ná því á okkar heimavelli,“ segir Jóhann Berg við Sky Sports.

„Það er stórkostlegt að Ísland sé komið inn á heimsmeistaramótið og sé fámennasta þjóðin sem hafi afrekað slíkt. Við erum því komnir inn í sögubækurnar. Þetta var frábær stund,“ sagði Jóhann Berg.

„Við vorum líka að fara upp úr erfiðum riðli og við stóðum okkur því mjög vel,“ sagði Jóhann Berg.

„Það héldu örugglega margir að við værum búnir að ná okkar besta árangri á Evrópumótinu og nú væri þetta ævintýri búið.  Það er bara eitt lið sem kemst beint inn á HM úr hverjum riðli og umspilið er líka mjög erfitt. Ég held að við höfum verið í eina riðlinum þar sem voru fjórar þjóðir sem voru á EM. Þetta var því mjög erfiður riðill,“ sagði Jóhann Berg.

„Við töpuðum ekki leik á heimavelli og það var mjög mikilvægt,“ sagði Jóhann Berg en sá hann þetta fyrir sér þegar hann var lítill strákur?

„Það var draumurinn en það var erfitt að sjá hann ganga upp. Það var magnað afrek að komast á EM en nú verður heimsmeistaramótið enn stærra,“ sagði Jóhann Berg.

„Þegar ég var lítill þá horfði ég á EM, HM og ensku úrvalsdeildina. Ég er núna búinn að ná að spila á tveimur þessum keppnum og vonandi fæ ég tækifæri næsta sumar að spila í þriðju keppninni,“ sagði Jóhann en það má sjá allt viðtalið við hann hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.