Fótbolti

Sakar mótherjana um að senda vændiskonur á hótel leikmanna sinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningkona Paragvæ á leiknum umrædda en hún tengist fréttinni þó ekki neitt.
Stuðningkona Paragvæ á leiknum umrædda en hún tengist fréttinni þó ekki neitt. Vísir/AFP
Mikil spenna var í lokaumferðinni í Suður-Ameríkuriðli undankeppni HM í Rússlandi en úrslitin þar réðust í vikunni.

Einn af leikjunum í lokaumferðinni var á milli Paragvæ og Venesúela en heimamenn í Paragvæ voru í baráttunni um að komast í umspil um laust sæti á HM í Rússlandi næsta sumar.

Lið Venesúela átti ekki lengur möguleika á því að komast á HM 2018 en leikmenn liðsins fóru samt burtu með öll þrjú stigin eftir 1-0 sigur. Leikmenn Venesúela sáu um leið til þess að heimamenn í Paragvæ þurfa að sætta sig við það að horfa á HM í sjónvarpinu næsta sumar.

Rafael Dudamel, landsliðsþjálfari Venesúela, sagði að einhver hafi reynt að trufla liðið hans fyrir leikinn með því að senda fjölda vændiskvenna á hótel liðsins. Caracol Radio og La Nacion segja frá.

„Það voru nokkrar konur sem heimsóttu hótelið á mánudaginn en hugarfar minna leikmanna er gjörbreytt. Það kemur okkur ekki á óvart að konur komi á hótelið. Ég veit ekki hver sendi þær en þetta er gamalt bragð,“ sagði Rafael Dudamel.

Leikurinn fór fram í höfuðborginni Asuncion og Pargvæar voru tilbúnir að reyna ýmislegt til að slá andstæðinga sína útaf laginu.

Þjálfari hrósaði sínum leikmönnum fyrir fagmennskuna og leikmennirnir svöruðu síðan inn á vellinum og lönduðu 1-0 sigri. Yangel Herrera skoraði eina markið eftir 84 mínútur.

Sigurinn breytti því þó ekki að lið Venesúela endaði í neðsta sæti riðilsins en sá til þess að Paragvæ náði bara sjöunda sætinu.

Yangel Herrera fagnar sigurmarki sínu.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×