Fótbolti

Sakar mótherjana um að senda vændiskonur á hótel leikmanna sinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningkona Paragvæ á leiknum umrædda en hún tengist fréttinni þó ekki neitt.
Stuðningkona Paragvæ á leiknum umrædda en hún tengist fréttinni þó ekki neitt. Vísir/AFP

Mikil spenna var í lokaumferðinni í Suður-Ameríkuriðli undankeppni HM í Rússlandi en úrslitin þar réðust í vikunni.

Einn af leikjunum í lokaumferðinni var á milli Paragvæ og Venesúela en heimamenn í Paragvæ voru í baráttunni um að komast í umspil um laust sæti á HM í Rússlandi næsta sumar.

Lið Venesúela átti ekki lengur möguleika á því að komast á HM 2018 en leikmenn liðsins fóru samt burtu með öll þrjú stigin eftir 1-0 sigur. Leikmenn Venesúela sáu um leið til þess að heimamenn í Paragvæ þurfa að sætta sig við það að horfa á HM í sjónvarpinu næsta sumar.

Rafael Dudamel, landsliðsþjálfari Venesúela, sagði að einhver hafi reynt að trufla liðið hans fyrir leikinn með því að senda fjölda vændiskvenna á hótel liðsins. Caracol Radio og La Nacion segja frá.

„Það voru nokkrar konur sem heimsóttu hótelið á mánudaginn en hugarfar minna leikmanna er gjörbreytt. Það kemur okkur ekki á óvart að konur komi á hótelið. Ég veit ekki hver sendi þær en þetta er gamalt bragð,“ sagði Rafael Dudamel.

Leikurinn fór fram í höfuðborginni Asuncion og Pargvæar voru tilbúnir að reyna ýmislegt til að slá andstæðinga sína útaf laginu.

Þjálfari hrósaði sínum leikmönnum fyrir fagmennskuna og leikmennirnir svöruðu síðan inn á vellinum og lönduðu 1-0 sigri. Yangel Herrera skoraði eina markið eftir 84 mínútur.

Sigurinn breytti því þó ekki að lið Venesúela endaði í neðsta sæti riðilsins en sá til þess að Paragvæ náði bara sjöunda sætinu.

Yangel Herrera fagnar sigurmarki sínu. Vísir/AFP


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.