Handbolti

Daníel: Pabbi er alltaf á bakinu á mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Þór Ingason leikmaður Hauka var í gær valinn í 20 manna hóp íslenska landsliðsins í handbolta. Hann segir að eftir að hafa fengið tækifæri í æfingaleikjum með landsliðinu í Noregi fyrr á þessu ári hafi hann sett stefnuna á að halda sér í liðinu.

Arnar Björnsson ræddi við Daníel í kvöldfréttum Stöðvar tvö þar sem þeir ræddu um tímabilið til þess og samband hans og föður hans.

„Ég er búinn að bæta mig mikið, líkamlega andlega og leikfræðilega. Ég er búinn að bæta mig í öllu.  Ég tók matarræðið aðeins i gegn í sumar og byrjaði að borða aðeins hollari mat. Það hefur hjálpað mér,“ sagði Daníel við Arnar.

Faðir hans Ingi Rafn Jónsson lék með Val og landsliðinu og hann fylgist vel með syni sínum.

„Hann er alltaf á bakinu á mér. Í hverjum leik er hann að setja út á eitthvað,“ segir Daníel en Ingi Rafn lék með hinu sigursæla Valsliði á tíunda áratugnum og varð mörgum sinnum Íslands- og bikarmeistari.

Daníel stefnir á atvinnumennsku en er samningsbundinn Haukum og ætlar að einbeita sér að því að spila vel með liðinu í vetur.  Stefnir hann á að blanda sér í baráttuna um markakóngstitilinn?  

„Já maður stefnir að því fyrst þetta er búið að ganga svona vel í haust.  Þá heldur maður því bara áfram,“ segir Daníel en hver er framtíðardraumurinn?

„Atvinnumennskan er númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Daníel. Barcelona eða Paris St. Germain?

„Bara það sem kemur upp og er spennandi,“ sagði Daníel að lokum en það má sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×