Fastir pennar
Hörður Ægisson

Rétti tíminn

Hörður Ægisson skrifar

Það er nánast sama hvert er litið. Fjárfesting í helstu innviðum landsins, hvort sem um er að ræða í vegagerð, orkuflutningum, fasteignum í eigu ríkisins, höfnum eða flugvöllum, hefur núna um árabil verið langtum minni en nauðsynlegt getur talist. Þannig er fjárfesting hins opinbera í samfélagsinnviðum í dag um helmingi minni sem hlutfall af landsframleiðslu en hún hefur verið sögulega séð. Þetta er ekki hvað síst áhyggjuefni fyrir þær sakir að öflugir innviðir haldast í hendur við samkeppnishæfni hverrar þjóðar. Ísland er þar engin undantekning.

Skýrsla sem Samtök iðnaðarins kynntu í síðustu viku sýnir glöggt mikilvægi þess að stjórnvöld marki sér heildstæða stefnu til lengri tíma um innviðauppbyggingu. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða er um 372 milljarðar króna, eða sem nemur rúmlega 15 prósentum af áætlaðri landsframleiðslu Íslands á þessu ári. Þar munar mest um 110 til 130 milljarða uppsafnaða fjárfestingarþörf í vegakerfinu. Á sama tíma og umferð hefur aukist stórlega á síðustu árum, einkum og sér lagi vegna fjölgunar ferðamanna, þá hefur fjárfesting í vegasamgöngum ekki verið minni frá því undir lok síðustu aldar. Þetta er verulegt áhyggjuefni.

Hvað er til ráða? Öllum má vera ljóst að ríkissjóður, sem er rekinn með aðeins rúmlega eins prósents afgangi á toppi hagsveiflunnar, hefur ekki bolmagn til að sinna allri fjárfestingarþörf í innviðum. Aðkoma lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta, innlendra sem og erlendra, er þess vegna í senn nauðsynleg og æskileg. Ólíkt því sem þekkist í nágrannaríkjum okkar eru nánast allir innviðir landsins í eigu ríkisins eða sveitarfélaga. Þetta þarf að breytast. Pólitískar kreddur sumra stjórnmálaflokka þurfa í þessum efnum að víkja fyrir bláköldum staðreyndum.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra benti réttilega á það í vikunni að ein leið fyrir stjórnvöld væri að losa um hið mikla eigið fé í bönkunum og greiða út til ríkissjóðs, sem eiganda að stórum hluta bankakerfisins, og nýta að hluta til fjárfestingar og innviðauppbyggingar. Með þessu móti væri hægt að minnka efnahagsreikning bankanna um að lágmarki tugi milljarða og um leið gera ríkinu auðveldara um vik í framhaldinu að selja eignarhluti sína á hinum örsmáa íslenska markaði. Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af eiginfjárstöðu viðskiptabankanna þrátt fyrir slíkar ráðstafanir. Þeir yrðu eftir sem áður einir best fjármögnuðu bankar í Evrópu með yfir tuttugu prósenta eiginfjárhlutfall.

Fæstir stjórnmálamenn gera sér grein fyrir þeim fórnarkostnaði sem fylgir því fyrir ríkið að vera með nærri 500 milljarða bundna sem eigið fé í bönkunum. Arðsemi af reglulegum rekstri þeirra var rétt yfir sex prósent í fyrra sem er litlu meiri ávöxtun en fjárfesting í áhættulausum ríkisskuldabréfum. Skattgreiðendur eiga kröfu um að þessum fjármunum verði ráðstafað með skynsamlegri hætti, meðal annars í því skyni að efla innviði landsins og þannig skapa grunn að hagvexti framtíðarinnar. Skýr merki eru um að farið sé að hægja á vexti hagkerfisins og því eru að skapast efnahagslegar aðstæður – fyrir ríkið og einkaaðila – til að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum á komandi árum. Tækifærið er núna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.