Körfubolti

Matthías Orri: Af hverju laumuðu þeir ekki inn einni stoðsendingu og einu frákasti?

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Matthías Orri Sigurðarson.
Matthías Orri Sigurðarson. Vísir/Eyþór
Besti maður ÍR í kvöld, Matthías Orri Sigurðarson, var að vonum ánægður með þægilegan 24 stiga sigur sinna manna á Hetti í Domino´s deild karla í körfubolta í kvöld.

„Þetta var alveg eins leikur og við vorum að leggja upp með. Ná góðri forystu snemma og halda henni. Mér er alveg sama hvort við vinnum með 20, 30 eða 40 stigum,“ sagði Matthías Orri.

Matthías átti flottan leik í kvöld og var grátlega nálægt því að enda með þrefalda tvennu. Hann endaði með 18 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar.

„Ég hefði getað hitt betur og það er ennþá smá haustbragur á okkur.Við klikkum á galopnum skotum í fyrri hálfleik. En ég þarf að tala við þá sem sjá um tölfræðina og spyrja þá af hverju þeir laumuðu ekki inn einni stoðsendingu og einu frákasti,“ sagði Matthías og glotti.

Matthías var ánægður með stuðningsmannasveit ÍR, Ghetto Hooligans, sem sungu hástöfum frá fyrstu mínútu og héldu uppi góðri stemmningu í Hertz Hellinum.

„Þeir eru alltaf svakalegir og þetta er bara komið til að vera. Við erum að gefa þeim eitthvað til að vera brjálaðir yfir og þeir muna mæta meðan við spilum svona,“ sagði Matthías Orri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×