Innlent

Rétt ákvörðun að slíta stjórnarsamstarfinu: „Við getum ekki verið hluti af frændhygli og sérhagsmunum“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, sagði flokkinn hafa aukið á heiðarleika í íslenskri pólitík.
Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, sagði flokkinn hafa aukið á heiðarleika í íslenskri pólitík. Vísir/Stöð2

Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar og oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, sagði að flokksmenn hefðu slitið stjórnarsamstarfinu vegna þess að þeir gátu ekki hugsað sér að vera „hluti af frændhygli og sérhagsmunum.“

Guðlaug Kristjánsdóttir var, ásamt fulltrúum flokkanna í Norðvesturkjördæmi, gestur Höskuldar Kára Schram í öðrum Kosningaþætti Stöðvar 2. Í þættinum var tekist á um stjórnarslitin en fulltrúarnir voru ekki á einu máli um það hvers vegna gengið er til kosninga.

Guðlaug segist „dauðsjá“ eftir Björt Ólafsdóttur úr Umhverfisráðuneytinu og Óttari Proppé úr heilbrigðismálunum en hún segir að það sé til marks um hugrekki þeirra að kasta frá sér valdastólunum til að standa vörð um sín gildi. Aðspurð, segir Guðlaug að það hafi verið rétt ákvörðun að slíta samstarfinu.

„Algjörlega, okkar ákvörðun kom í kjölfarið á framgöngu annarra.“ Hún segir ákvörðunina sýna fram á það að Björt framtíð sé flokkur sem standi við orð sín. „Við segjum það sem við meinum og gerum það sem við segjum. Við komum inn til að breyta.“

Haraldur Benediktsson, sem leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sagði flokkinn tilbúinn í kosningabaráttuna. Vísir/Stöð 2

Haraldur Benediktsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, er ekki sama sinnis. Aðspurður, segir Haraldur Sjálfstæðismenn ekki vera sáttir með aðdraganda kosninganna og tekur þannig mið af ákvörðun Bjartrar framtíðar um að slíta stjórnarsamstarfinu án þess að ræða við stjórnarflokkana fyrst.

„Nei, að sjálfsögðu ekki. Við vorum ekki á leið í kosningar. Við vorum rifin frá verkum sem við vorum rétt að hefja vinnu við,“ segir Haraldur. Hann segir þó að það sé enginn vandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fara í kosningar og að kosningabaráttan sé nú þegar hafin.

Í spilaranum að neðan er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.


Tengdar fréttir

Gönuhlaup Bjartrar framtíðar

Ríkisstjórnin er búin að sitja í 8 mánuði, og má draga frá þessum tíma þinghlé og sumarleyfi. Var ríkisstjórnin því enn með stefnu sína og framkvæmdaáætlun á undirbúningsstigi. Með riftun Bjartrar framtíðar á stjórnarsamkomulaginu var þessi undirbúningur að litlu gerður; tapaður tími og vinnaAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira