Erlent

Rose McGowan segir Weinstein hafa nauðgað sér

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rose McGowan er þekkt fyrir leik sinn í þáttunum Charmed og kvikmyndum á borð við Scream.
Rose McGowan er þekkt fyrir leik sinn í þáttunum Charmed og kvikmyndum á borð við Scream. Vísir/Getty

Leikkonan Rose McGowan segir kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein hafa nauðgað sér. Bætist hún þar í hóp fjölda kvenna sem stigið hafa fram á síðustu dögum og lýst framferði Weinstein.

Hún er jafnframt fjórða konan sem sakar hann um nauðgun. Áður hafði The New Yorker greint frá þremur ásökunum; einni frá leikkonunni Lucia Evans, ásökun hinnar ítölsku Asia Argento og frá einni sem vildi ekki að nafns hennar yrði getið.

Sjá einnig: Verst geymda leyndarmál Hollywood í áratugi

CNN hafði samband við talsmann Weinstein sem tjáði sig ekki um málið að öðru leyti en að hann neitaði áfram öllum ásökunum.

McGowan, sem þekkt er fyrir leik sinn í þáttunum Charmed og kvikmyndum á borð við Scream, Death Proof og Black Dahlia, sagði frá nauðguninni á Twitter-síðu og beindi orðum sínum að Jeff Bezos, forstjóra Amazon.Í tístinu segist hún hafa sagt samstarfsmanni Bezos ítrekað frá nauðguninni sem vísaði henni á bug. Amazon hefur ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla ytra.

Yfirmaður kvikmyndavers fyrirtækisins, Roy Price, var þó sendur strax í ótímabundi leyfið í gær eftir að samstarfskona hans Isa Hackett, sakaði hann um að hafa áreitt sig árið 2015.

McGowan hefur ítrekað á síðastliðnu ári greint frá því að sér hafi verið nauðgað af kvikmyndaframleiðanda án þess þó að nafngreina hann.

New York Times greindi síðar frá því að árið 1997 hafi hún þegið 100 þúsund dala sáttagreiðslu frá Weinstein. Úr orðalagi sáttarinnar mætti þó ekki lesa hvers konar brot var um að ræða eða að Weinstein féllist á að hann hafi brotið af sér.


Tengdar fréttir

Verst geymda leyndarmál Hollywood í áratugi

Harvey Weinstein hefur verið einn valdamesti maðurinn í Hollywood í áratugi. Hann hefur nú verið rekinn frá framleiðslufyrirtæki sínu og er á leið í meðferð við kynlífsfíkn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira