Erlent

Trump hættir stuðningi embættisins við kjarnorkusamninginn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Getty

Fastlega er búist við því að Donald Trump Bandaríkjaforseti dragi til baka stuðning forsetaembættisins við kjarnorkusamninginn sem gerður var við Íran og leggi til aðrar og harðari leiðir í samskiptum við ríkið.

Ákvörðun forsetans mun þó ekki draga Bandaríkin út úr samningunum sem gerðir voru í tíð Obama forseta heldur hefur Bandaríkjaþing sextíu daga til að ákveða hvort farið verði út úr samningunum og nýjar refsiaðgerðir settar á Íran. Þó að spekingar vestanhafs efist um að þingið muni fara fram á nýjar samningaviðræður, því Íranir eru taldir líklegri til að rifta samningum ef svo bæri undir, er útspil Trump engu að síður talið grafa undan lögmæti samningsins.

Sjá einnig: Trump sagður ætla að rifta kjarnorkusamningunum við Íran

Talsmenn Bandaríkjastjórnar segja að Rex Tillerson utanríkisráðherra hafi þegar rætt málið við kollega sína í Evrópu og í Kína en samkvæmt samningunum við Íran var ákveðið að aflétta viðskiptabanni á Íran að hluta gegn því að ríkið hætti kjarnorkuþróun sinni.

Trump hefur lengi gagnrýnt samningana en þeim hefur hinsvegar verið vel tekið annarsstaðar í stjórnkerfinu. „Mér finnst þetta vera einhvert ókláraðasta samkomulag sem ég hef séð,“ sagði forsetinn til að mynda í samtali við Fox á miðvikudag.

Hann hafði til 15. október til að gefa þinginu skýrslu um hvort að Íranir séu að fara eftir skilmálum samkomulagsins og hvort hann telji það hjálpa þjóðarhagsmunum Bandaríkjanna.

Varnarmálaráðherrann James Mattis er ósammála forsetanum og sagði til að mynda á fundi þingnefndar á dögunum að það væri ekki í þjóðarhag að rifta samningunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira