Enski boltinn

Wenger: Sánchez undir álíka pressu í Síle og Beckham hjá Englandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pressan á Alexis Sánchez er mikil.
Pressan á Alexis Sánchez er mikil. Vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir enga eðlilega pressu vera á Alexis Sánchez, framherja liðsins, þegar að hann spilar með landsliði Síle. Pressan er svipuð og David Beckham var undir með enska landsliðinu á sínum tíma.

Sánchez verður ekki á HM í Rússlandi næsta sumar þar sem Síle klúðraði sínum málum í síðustu leikjum undankeppninnar og Wenger líkti pressunni sem hann er undir við pressuna sem Beckham var undir þegar að hann spilaði með Englandi.

Beckham var eitt af undrabörnum enska boltans, dýrkaður og dáður, þar til að hann fékk rautt spjald gegn Argentínu í frægum leik á HM 1998 í Frakklandi. Hann átti síðar eftir að verða fyrirliði liðsins og skjóta liðinu á HM 2002 með mögnuðu marki á móti Grikklandi.

„Ég myndi segja að hver kynslóð er með svona leikmann sem ber hitann og þungann af pressunni frá heilli þjóð,“ sagði Wenger á blaðamannafundi í gær aðspurður um líðan Alexis Sánchez eftir HM-klúðrið.

„Í Frakklandi var það Zidane og á Englandi var það Beckham. England var með aðra leikmenn í liðinu eins og Steven Gerrard en alltaf var horft til Beckham.“

„Í Síle er það Sánchez og í Argentínu auðvitað Messi. Það virðist alltaf vera einn maður sem þarf að standa undir allri pressunni og draga hana að sér fyrir allt liðið,“ sagði Arsene Wenger.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×