Erlent

Mannskæðustu skógareldarnir í sögu Kaliforníu

Atli Ísleifsson skrifar
Eldarnir hafa náð yfir alls um 700 ferkílómetra svæði.
Eldarnir hafa náð yfir alls um 700 ferkílómetra svæði. Vísir/AFP
Tala látinna í Kaliforníu er komin upp í 31 vegna skógareldanna sem þar geisa í vínhéruðum ríkisins. Stjórnvöld hafa varað við því að ástandið gæti versnað þar enn.

Hundruða er enn saknað og berjast nú um átta þúsund slökkviliðsmenn við eldana sem telja á þriðja tug. Um 3.500 byggingar hafa brunnið til grunna í eldunum og um 25 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Eldarnir hafa náð yfir alls um 700 ferkílómetra svæði.

Í frétt BBC segir að staðfest sé að sautján hafi látið lífið í Sonoma-sýslu, átta í Mendocino, fjórir í Yuba og tveir í Napa.

Þetta þýðir að um sé að ræða mannskæðustu skógareldana í sögu ríkisins, en 29 fórust í eldum í Griffith Park í Los Angeles árið 1933.

Nokkuð hefur dregið úr vindi síðustu daga sem hefur auðveldað starf slökkviliðsmanna. Spár gera hins vegar ráð fyrir að það munu hvessa á ný í kvöld.


Tengdar fréttir

Gríðarleg eyðilegging í norðurhluta Kaliforníu

Í þrjá daga hafa gríðarlegir skógar- og kjarreldar geysað í norðurhluta Kaliforníuríkis og hafa alls 433 ferkílómetrar lands brunnið. Eldarnir hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu í helstu vínhéruðum ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×