Erlent

Mannskæðustu skógareldarnir í sögu Kaliforníu

Atli Ísleifsson skrifar
Eldarnir hafa náð yfir alls um 700 ferkílómetra svæði.
Eldarnir hafa náð yfir alls um 700 ferkílómetra svæði. Vísir/AFP

Tala látinna í Kaliforníu er komin upp í 31 vegna skógareldanna sem þar geisa í vínhéruðum ríkisins. Stjórnvöld hafa varað við því að ástandið gæti versnað þar enn.

Hundruða er enn saknað og berjast nú um átta þúsund slökkviliðsmenn við eldana sem telja á þriðja tug. Um 3.500 byggingar hafa brunnið til grunna í eldunum og um 25 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Eldarnir hafa náð yfir alls um 700 ferkílómetra svæði.

Í frétt BBC segir að staðfest sé að sautján hafi látið lífið í Sonoma-sýslu, átta í Mendocino, fjórir í Yuba og tveir í Napa.

Þetta þýðir að um sé að ræða mannskæðustu skógareldana í sögu ríkisins, en 29 fórust í eldum í Griffith Park í Los Angeles árið 1933.

Nokkuð hefur dregið úr vindi síðustu daga sem hefur auðveldað starf slökkviliðsmanna. Spár gera hins vegar ráð fyrir að það munu hvessa á ný í kvöld.


Tengdar fréttir

Gríðarleg eyðilegging í norðurhluta Kaliforníu

Í þrjá daga hafa gríðarlegir skógar- og kjarreldar geysað í norðurhluta Kaliforníuríkis og hafa alls 433 ferkílómetrar lands brunnið. Eldarnir hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu í helstu vínhéruðum ríkisins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira