Erlent

Þrír létu lífið í fallhlífastökki í Ástralíu

Atli Ísleifsson skrifar
Fallhlífastökk er vinsæl iðja á meðal ferðamanna í Queensland. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Fallhlífastökk er vinsæl iðja á meðal ferðamanna í Queensland. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Þrír fallhlífastökkvarar eru látnir eftir að þeir rákust saman á leið sinni til jarðar í Queensland í Ástralíu.

Sjúkralið og lögregla voru kölluð á vettvang á Mission Beach, vinsælum áfangastað fyrir fallhlífastökkvara, um 140 kílómetrum suður af Cairns.

Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að tveir karlmenn á fertugsaldri og kona á sextugsaldri hafi fundist látin á staðnum.

Er talið að einn fallhlífastökkvarinn hafi rekist á hin tvö, sem voru fest saman, og hafi það leitt til þess að fallhlífarnar opnuðust ekki sem skyldi.

Ástralskir fjölmiðlar segja lík fólksins hafa fundist um einum og hálfum kílómetra frá áætluðum lendingarstað.

Cairns Post hefur eftir sjónarvotti að það hafi sést að ein fallhlífin hafi flækst og ekki opnast. „Ég sá hann í frjálsu falli þar til hann hvarf á bakvið trén. Það var það síðasta sem ég sá,“ er haft eftir sjónarvottinum.

Fallhlífastökk er vinsæl iðja á meðal ferðamanna í Queensland sem margir leggja leið sína til Mission Beach, einmitt í þeim tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×