Handbolti

Tjörvi á leið í aðgerð og verður frá fram á nýtt ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tjörvi Þorgeirsson þarf að fara í aðgerð.
Tjörvi Þorgeirsson þarf að fara í aðgerð. vísir/ernir
Meiðslavandræða Hauka ætla engan enda að taka en nú er liðið að missa leikstjórnanda sinn, Tjörva Þorgeirsson. Tjörvi er á leið í aðgerð og snýr ekki aftur fyrr en eftir áramót.

Þessi snjalli spilari er búinn að vera að spila meiddur og aðeins skorað átta mörk í fimm leikjum. Brjóskið í hnénu sem hann sleit krossband í er að stríða honum og verður Tjörvi því að gangast undir aðgerð.

„Hann spilar næstu tvo leiki en fer svo í aðgerð og verður frá í tólf vikur,“ segir Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, við Vísi. Hann nær því leikjunum á móti Aftureldingu á mánudaginn og Gróttu annan sunnudag en spilar svo ekki aftur fyrr en á nýju ári.

Haukar hafa glímt við sinn skerf af meiðslum í byrjun tímabils en liðið er enn án Adams Hauks Baumruk sem er með einkirningasótt og óvíst er hvenær hann snýr aftur.

Þrátt fyrir allt hafa Haukarnir spilað mjög vel og eru í í þriðja sæti deildarinnar með átta stig eftir fjóra sigurleiki og eitt tap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×