Erlent

Íraksher hefur sókn að Kirkuk

Atli Ísleifsson skrifar
Mikil spenna er á svæðinu eftir að meirihluta Kúrda greiddi á dögunum atkvæði með sjálfstæði Kúrdistan.
Mikil spenna er á svæðinu eftir að meirihluta Kúrda greiddi á dögunum atkvæði með sjálfstæði Kúrdistan. Vísir/AFP
Íraksher hefur hafið sókn inn í Kirkuk-hérað. Þetta hefur AFP eftir ónafngreindum írökskum hershöfðingja. „Írakski herinn sækir nú fram til að ná aftur þeim stöðum sem féllu í júní 2014.“

Hryðjuverkasamtökin ISIS náðu yfirráðum á stórum landsvæðum norður og vestur af höfuðborginni Bagdad sumarið 2014, meðal annars í Kirkuk, eftir að hersveitir Íraka flúðu frá borginni undan skyndisókn ISIS. Peshmergasveitum Kúrda tókst síðar að hrekja ISIS-liða frá borginni.

Tilkynning hershöfðingjans kom skömmu eftir að greint var frá því að þúsundir kúrdískra hermanna hafi verið sendir til svæða umhverfis Kirkuk, þar mikla olíu er að finna, af ótta við mögulega sókn Írakshers.

„Þúsundir þungvopnaðara peshmergahermanna eru nú staðsettir á stöðum í kringum Kirkuk,“ segir Hemin Hawrami, háttsettur ráðgjafi Masoud Barzani, leiðtoga Kúrda, á Twitter. „Markmið þeirra er að verja borgina sama hvað það kostar.“

Mikil spenna er á svæðinu eftir að meirihluta Kúrda greiddi á dögunum atkvæði með sjálfstæði Kúrdistan. Stjórnvöld í Bagdad segja atkvæðagreiðsluna hafa verið ólöglega. Atkvæðagreiðslan fór meðal annars fram í borginni Kirkuk, sem bæði leiðtogar Kúrdar og íröksk yfirvöld gera tilkall til.

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, greindi frá því síðast í gær að írakski herinn hafi ekki nein áform um að ráðast á Kúrda. „Við munum ekki nýta her okkar til að ráðast á eigið fólk eða kúrdíska borgara okkar eða aðra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×