Erlent

Tarantino rýfur þögnina varðandi mál Weinstein

Atli Ísleifsson skrifar
Havey Weinstein og Quentin Tarantino í febrúar síðastliðinn.
Havey Weinstein og Quentin Tarantino í febrúar síðastliðinn. Vísir/Getty

Leikstjórinn Quentin Tarantino hefur nú loks tjáð sig um mál Harvey Weinstein sem skekið hefur Hollywood síðustu daga.



Hneykslismálið hefur haldið áfram að vaxa að umfangi og hefur hver stórstjarna Hollywood á fætur annarri fordæmt gjörðir bandaríska kvikmyndaframleiðandans. Þá hafa sífellt fleiri leikkonur – meðal annars Angelina Jolie og Gwyneth Paltrow – deilt sögum af samskiptum sínum við Weinstein.



Leikstjórinn Quentin Tarantino og Weinstein hafa starfað saman í um aldarfjórðung og hafa áður lýst sambandi sínu sem „vinnuhjónabandi“. Leikstjórinn hafði ekkert tjáð sig um málið frá því að New York Times greindi frá því fyrir rúmri viku að Weinstein hafi áreitt fjölda kvenna kynferðislega síðustu áratugina.



Með yfirlýsingu á Twitter-síðu Tamblyn

Tarantino birtir yfirlýsingu í nótt sem leikkonan og vinkona Tarantino, Amber Tamblyn, birtir á Twittersíðu sinni. Þar segist Tarantino forviða og niðurbrotinn og að hann þurfi að ná að vinna úr sársaukanum áður en hann tjáir sig opinberlega um málið.



„Síðustu vikuna hef ég verið forviða og niðurbrotinn vegna þeirra upplýsinga sem hafa komið fram um vin minn til 25 ára, Harvey Weinstein. Ég þarf nokkra daga til viðbótar til að vinna úr sársaukanum, tilfinningunum, reiðinni og minningunum og svo mun ég ræða þetta opinberlega,“ segir Tarantino.



Sniðganga Twitter

Á Twitter er nú í gangi herferð þar sem konur eru hvattar til að sniðganga Twitter í heilan dag. Forsvarsmaður herferðarinnar er leikkonan Rose McGowan sem mikið hefur verið í umræðunni í tengslum við mál Weinstein og hefur nú sakað hann um að hafa nauðgað sér.



Twitter lokaði á reikning McGowan í tólf tíma í gær í kjölfar röð tísta sem beindust að Weinstein og leikaranum Ben Affleck. Affleck hefur mikið verið í umræðunni eftir að hafa fyrst fordæmt gjörðir Weinstein, en síðar þurft að biðjast afsökunar eftir að konur sögðu frá því að Affleck hafi káfað á þeim.



Hefur framleitt myndir Tarantino

Weinstein hefur verið framleiðandi allra kvikmynda Tarantino, allt frá því að Pulp Fiction var gefin út árið 1994. Síðasta samstarfsverkefni þeirra félaga var The Hateful Eight sem kom út árið 2015. Weinstein skipulagði í síðasta mánuði veislu fyrir Tarantino í New York í tilefni af trúlofun Tarantino.


Tengdar fréttir

Verst geymda leyndarmál Hollywood í áratugi

Harvey Weinstein hefur verið einn valdamesti maðurinn í Hollywood í áratugi. Hann hefur nú verið rekinn frá framleiðslufyrirtæki sínu og er á leið í meðferð við kynlífsfíkn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×