Innlent

Telja Fjölnismessu ekki fara gegn siðareglum ÍSÍ

Birgir Olgeirsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Fjölnismessa fer fram í Grafarvogskirkju á sunnudag.
Fjölnismessa fer fram í Grafarvogskirkju á sunnudag. Vísir

„Það kemur beiðni frá kirkjunni um þetta mál. Það er engum skylt að mæta,“ segir Jón Karl Ólafsson, formaður Ungmennafélags Fjölnis, í samtali við Vísi um svokallaða Fjölnismessu sem fer fram í Grafarvogskirkju á sunnudag klukkan 11.

Jón Karl segir Grafarvogskirkju hafa átt hugmyndina að þessari Fjölnismessu og ekki í fyrsta sinn sem það hefur verið gert.

Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis.

Einhverjir hafa bent á að þessi Fjölnismessa fari gegn siðareglum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, sem Fjölnir tilheyrir.

Í fjórðu grein þeirrar reglna kveður á um að hlutleysi í samskiptum við opinberar stofnanir, innlend og alþjóðleg samtök sem og önnur sambönd eða hópa í samræmi við grundvallar hugsjónir íþróttahreyfingarinnar. Í fimmtu greininni er kveðið á um að ekki skuli misbjóða virðingu einstaklinga eða hópi einstaklinga þegar kemur að kynferði, þjóðerni, kynþætti, litarhafti, menningu, tungumáli, trúarbrögðum, kynhneigð og stjórnmálaskoðunum.

Jón Karl segir stjórn Fjölnis hafa einmitt haft siðareglur ÍSÍ til hliðsjónar við ákvörðunina um að taka þátt í Fjölnismessu Grafarvogskirkju. Niðurstaðan sé sú að svo lengi sem Fjölnir sé hlutlaus gagnvart öllum þá stangist þessi messa ekki á við siðareglurnar að þeirra mati.

„Við erum ekki að velja einn umfram annan. Við viljum gjarnan vinna með flestum. Við lítum á þetta sem forvarnarstarf að stunda íþróttir og viljum gjarnan koma því á framfæri á sem flestum stöðum,“ segir Jón Karl.

Ef önnur trúfélög muni hafa samband við Fjölni verði svarið það sama, Fjölnir starfi með öllum sem vinna með ungu fólki til að leggja áherslu á forvarnargildi íþrótta.

„Við erum hverfisfélag og viljum koma því á framfæri sem víðast að börn stundi íþróttir. Þannig að við erum fyrst og fremst þar á þeirri forsendu,“ segir Jón Karl.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira