Bílar

Yamaha með bíl á Tokyo Motor Show

Finnur Thorlacius skrifar
Þennan tilraunabíl sýndi Yamaha á bílasýningunni í Tókýó fyrir tveimur árum.
Þennan tilraunabíl sýndi Yamaha á bílasýningunni í Tókýó fyrir tveimur árum.
Yamaha mótorhjólaframleiðandinn hefur ekki hingað til verið þekkt fyrir framleiðslu bíla, en það virðist vera að breytast því fyrirtækið mun frumsýna bíl á bílasýningunni í Tókýó seinna í þessum mánuði. Yamaha hefur ekkert látið uppi um þennan bíl, en fyrir tveimur árum síðan sýndi Yamaha reyndar einnig tilraunabíl á þessari sömu sýningu og sést mynd af þeim bíl hér.

Þá var nefnt að hugsanlega færi sá bíll í framleiðslu með 1,5 lítra forþjöppudrifinni bensínvél, en ekkert hefur spurst af honum síðan. Því má ætla að bíllinn sem Yamaha ætlar að sýna nú sé hugsanlega sami bíll sem kominn er nær framleiðslustiginu.

Bíllinn fyrir tveimur árum var smár og vó aðeins 750 kíló, var 3,9 metra langur, 1,72 metri á breidd og aðeins 1,17 metra hár. Leitt hefur verið getum að því að þessi bíll nú gæti líka verið með 1,0 lítra og þriggja strokka 75 hestafla vél framleiddri af Yamaha og að hún hafi verið hresst upp í um 100 hestöfl fyrir þennan bíl.

Þá hefur einnig verið talið líklegt að þessi nýi bíll verði framleiddur í Evrópu en ekki Japan og ætlaður fyrir Evrópumarkað. Það skildi þó ekki vera að fjölga muni í bílmerkjum heimsins og það ekki með óþekktari framleiðanda en Yamaha. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×