Lífið

Mikil reiði vegna „tveggja talna“ á sömu lottókúlunni

Atli Ísleifsson skrifar
Bónustalan var 26.
Bónustalan var 26.
Írskir lottospilarar og sjónvarpsáhorfendur eru margir hverjir undrandi og jafnvel reiðir eftir að lottókúla sem dregin var út í síðasta útdrætti virtist vera með tvær tölur á sér.

Irish National Lottery fullyrðir að ekki sé maðkur í mysunni þó að mörgum þyki að þeim hafi ekki tekist að svara spurningunni um af hverju talan 33 virðist hafa sést á lottókúlu númer 38 með sannfærandi hætti.

Kúla númer 38 var önnur í röðinni í útdrætti vikunnar, en glöggir áhorfendur tóku eftir því að á henni virtist einnig vera talan 33. Á samfélagsmiðlum fóru strax af stað ásakanir um að lottóútdrátturinn væri hagræddur með ólöglegum hætti.

Irish National Lottery hafa þegar þurft að senda frá sér nokkrar tilkynningar vegna málsins. Þar er fullyrt að allt hafi fram með lögmætum og réttum hætti og er sérstaklega vísað í niðurstöður innri rannsóknar um ástæður þess að tvær tölur hafi virst vera á kúlu númer 38. Er fullyrt að birtan í salnum þar sem útdrátturinn fór fram hafi villt fyrir áhorfendum.

Ekki hafa allir tekið útskýringar yfirvalda trúanlega.

Réttar tölur í útdrættinum fyrr í vikunni voru 1, 4, 29, 38, 45, 46 og var bónustalan 26.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×