Innlent

Vélmenni í stað fréttamanna?

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Vélmenni gætu jafnvel sinnt störfum fréttamanna þegar fram líða stundir. Þetta var meðal þess sem fram kom á Tækni-og hugverkaþingi Samtaka Iðnaðarins í dag. Hugverk, hagkerfið og heimurinn var yfirskrift málþingsins sem fram fór á Grand Hótel, en þar voru saman komnir aðilar víða úr tækni- og atvinnulífinu auk stjórnmálamanna. Sérstaklega var horft til fjórðu iðnbyltingarinnar svokölluðu, tækniframfara og þeirra breytinga sem verða með aukinni gervigreind.

Yngvi Björnsson, prófessor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík hélt erindi á þinginu, en hann segir notkun gervigreindar til þess fallna að auka framleiðni og auðvelda ýmis verk. Þá séu mikil tækifæri fyrir Íslendinga á sviðinu. Hann segir þróunina þó afar hraða og mikilvægt sé að Íslendingar haldi vel á spöðunum.

Í fyrirlestrinum var einnig fjallað um þær áskoranir sem aukin vitvélavæðing hefur í för með sér. Yngvi segir rannsóknir benda til þess að á næstu 20 árum gæti allt að helmingur þeirra starfsgreina sem við þekkjum í dag verið úr myndinni, eða mikið breyttur. Þ.a.l. sé mikilvægt að aðlaga sig nýrri tækni, enda geti framþróunin snert á öllum geirum. Þannig hafi meira að segja nemendur við Háskólann í Reykjavík unnið að evrópsku verkefni um þróun vitvéla sem tekið geti sjónvarpsviðtöl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×