Innlent

Hryllingstrúðar stálu senunni á Bleika deginum

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Bleikir hryllingstrúðar og naglalakkaðir bifvélavirkjar. Þetta var meðal þess sem sjá mátti þegar haldið var upp á bleika daginn á vinnustöðum landsins í dag. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri krabbameinsfélagsins, fagnar útbreiðslu átaksins, en segir að mæting kvenna í skimun mætti þó vera talsvert betri.

Undanfarin tíu ár hefur októbermánuður verið undirlagður baráttu gegn krabbameini hjá konum. Átakið fer fram undir merkjum bleiku slaufunnar og þátttaka aukist með ári hverju. Vinnustaðir landsins voru margir hverjir skærbleikir í allan dag, en hjá Eimskipum stálu bleikir trúðar senunni.

Í bílaumboðinu BL er dagurinn haldinn hátíðlegur ár hvert og var engin undantekning í ár. Mikil samkeppni ríkir milli deilda og gengur dómefnd á milli og dæmir bleik-leikann. Þar er bæði keppt um bleikustu deildina og bleikasta starfsmanninn, en líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði var af nógu að taka.

Halla bendir á að á ári hverju greinist um 750 íslenskar konur með krabbamein. Málefnið snerti því alla þjóðina með einum eða öðrum hætti. Hún segir bleiku slaufuna nauðsynlega fjáröflun og samstöðuátak, en ekki síður mikilvæga vitundarvakningu. Þannig sé afar mikilvægt að konur láti verða af því að mæta þegar þeim berst boðun í skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×