Erlent

To Kill a Mockingbird tekin af leslista vegna „óþægilegs“ orðalags

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gregory Peck fór með hlutverk lögfræðingsins Atticusar Finch í kvikmyndinni To Kill a Mockingbird, sem byggð var á samnefndri skáldsögu Harper Lee, árið 1962.
Gregory Peck fór með hlutverk lögfræðingsins Atticusar Finch í kvikmyndinni To Kill a Mockingbird, sem byggð var á samnefndri skáldsögu Harper Lee, árið 1962. Vísir/Getty
Skáldsagan To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee, sem af mörgum er talin einn hornsteina bandarískra bókmennta, hefur verið tekin af leslista í grunnskóla í Mississippi-ríki í Bandaríkjunum. Ástæðan er sögð ákveðið orðalag í bókinni sem „lætur fólki líða óþægilega.“ Breska dagblaðið Guardian greinir frá.

Bókin var á leslista 8. bekkinga í Biloxi, borg í Misssissippi-ríki, þangað til skólayfirvöld tóku hana þaðan út í vikunni.

Sjá einnig: Harper Lee látin

„Það var kvartað undan henni. Það er notað ákveðið orðalag í bókinni sem lætur fólki líða óþægilega, og við getum komið sama boðskap til skila með öðrum bókum,“ sagði Kenny Holloway, varaformaður skólaráðs í Biloxi.

To Kill a Mockingbird, sem gefin var út árið 1960, fjallar um kynþáttamisrétti í smábæ í Alabama-ríki. Í bókinni er svartur karlmaður ákærður fyrir að hafa nauðgað hvítri konu og aðdragandi réttarhalda yfir honum er rakinn.

„N-orðið“ talið aðalástæðan

Í tölvupósti, sem svæðisblaðinu Sun Herald barst frá áhyggjufullum lesanda, var notkun á orðinu „negri“, niðrandi orði yfir svart fólk, sögð ástæða þess að bókinni var kippt út af leslistanum á miðri önn.

„Nemendurnir fá ekki að klára að lesa To Kill a Mockingbird vegna notkunar á „N-orðinu“,“ sagði í tölvupóstinum en sendandi var ekki hliðhollur ákvörðun skólayfirvalda. Viðkomandi sagði ákvörðunina enn fremur „óhugnanlegt dæmi um ritskoðun.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem To Kill a Mockingbird, sem einnig er skyldulesning í ensku í mörgum framhaldsskólum á Íslandi, er tekin af leslista bandarískra skólakrakka. Hún var fjarlægð af einum slíkum í grunnskólum í Virginíu-ríki í fyrra, að því er segir í frétt Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×