Erlent

Macron vill svipta Weinstein æðstu heiðursorðu Frakklands

Birgir Olgeirsson skrifar
Emmanuel Macron
Emmanuel Macron Vísir/Getty

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur hafið ferli sem miðast að því að svipta bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein æðstu heiðursorðu sem nokkur getur öðlast í Frakklandi.



Macron greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni í kvöld ásamt því að tjá sig um málið við franska fjölmiðla. Ástæðan að baki því er sá mikli fjöldi ásakana kvenna á hendur Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi. Það var Nicolas Sarkozy, þáverandi forseti Frakklands, sem veitti Weinstein orðuna árið 2012.

Harvey Weinstein.Vísir/Getty

Stjórn Óskarsakademíunnar ákvað í gær að reka Weinstein úr akademíunni.



Nokkrar franskar leikkonur hafa stigið fram og lýst því hvernig þær hafa orðið fyrir barðinu á Weinstein. Forsvarsmenn kvikmyndahátíðarinnar í Cannes hafa fordæmt óafsakanlega hegðun Weinsteins.



Breska kvikmynda- og sjónvarpsakademían, BAFTA, ákvað í síðustu viku að afturkalla aðild Weinsteins og þá hafa nokkrir breskir stjórnmálamenn hvatt Theresu May, forsætisráðherra Breta, til að svipta Weinstein stórriddaratign breska heimsveldisins.

Macron sagði við frönsku sjónvarpsstöðina TF1 að hann hefði beðið formann nefndarinnar sem veitir Légion d‘Honneur-orðuna að svipta Weinstein henni.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greindi frá því í dag að lögreglan í Bretlandi hefði hafið rannsókn á ásökunum gegn Weinstein. Var haft eftir lögreglunni að hann væri sakaður um brot gegn þremur konum í aðskildum atvikum í London seint á níunda áratug síðustu aldar, árið 1992, 2010, 2011 og 2015. Sagði lögregluna brotin hafa átt sér stað í Westminster, Camden og vestur London.



Lögreglan í New York rannsakar einnig ásakanir á hendur Weinstein um nauðgun og kynferðisbrot.



Weinstein hefur notið mikillar velgengni á ferli sínum sem kvikmyndaframleiðandi, en myndir á hans vegum hafa hlotið 300 tilnefningar til Óskarsverðlauna og unnið til 80 slíkra.


Tengdar fréttir

Woody Allen sorgmæddur vegna máls Harvey Weinstein

Bandaríski leikstjórinn Woody Allen segist sorgmæddur vegna máls Harvey Weinstein en á þriðja tug kvenna hafa stigið fram á undanförnum dögum og sakað hann um að hafa beitt þær kynferðislegu ofbeldi.

Fleiri konur saka Weinstein um nauðgun

Breska leikkonan Lysette Anthony segir Harvey Weinstein hafa ráðist á sig á heimili hennar í London seint á níunda áratugnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×