Erlent

Írakska hernum og Kúrdum lýstur saman

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hermenn taka sér stöðu skammt frá Kirkuk.
Hermenn taka sér stöðu skammt frá Kirkuk. Vísir/Getty
Bardagar geisa nú í Kirkuk-héraði í Írak eftir að stjórnvöld í höfuðborginni Bagdad sendu herlið gegn Kúrdum sem hafa haft héraðið á valdi sínu síðustu misserin. Ríkismiðlar í Írak fullyrða að írakski herinn hafi þegar náð stjórn á nokkrum svæðum í héraðinu, þar á meðal á olíuvinnslusvæðum, en talsmenn Kúrda neita þessu.

Þá berast fregnir af stórskotaliðsárásum suður af Kirkukborg, sem er höfuðstaður héraðsins. Spennan á milli fylkinganna tveggja hefur verið mikil frá því Kúrdar í Írak kusu sjálfstæði í atkvæðagreiðslu sem haldin var í síðasta mánuði.

Talsmaður þeirra sagði fyrr í vikunni við fjölmiðla ytra að kúrdískar sveitir munu ekki hefja hernaðaraðgerðir en væru reiðubúnar að verja Kirkukborg ef til þess kæmi.

Mikla olíu er að finna í Kirkuk-héraði og hafa báðar fylkingar gert tilkall til svæðisins. Þær hafa síðustu mánuði barist sameinaðar gegn vígamönnum íslamska ríkisins og náð eftirtektarverðum árangri.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum segjast hafa miklar áhyggjur af stöðu mála og hvetja stríðandi fylkingar til að hefja viðræður um framtíð svæðsins. Þá biðla þau til þeirra að leggja niður vopnin og hverfa frá öllu því sem grafið gæti undan stöðugleika landsins. Þá ættu fylkingarnar heldur að einbeita sér að baráttunni gegn Íslamska ríkinu.

Íröksk stjórnvöld höfðu áður sakað Kúrda um að senda vopnaða hermenn til Kirkuk, meðal annars hermenn kúrdíska verkamannaflokksins í Tyrklandi, PKK. Það, að mati yfirvalda í Bagdad, jafngilti stríðsyfirlýsingu. Kúrdar hafa ætíð neitað þessum ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×