Erlent

Lars von Trier: „Ég gerði þetta ekki“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Björk og Lars von Trier á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2000.
Björk og Lars von Trier á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2000. Vísir/Getty
Danski leikstjórinn Lars von Trier segir ekkert til í frásögn söngkonunnar Bjarkar um að hann hafi áreitt hana kynferðislega á tökustað myndarinnar Dancer in the Dark. 

Björk birti stöðuuppfærslu á Facebook í gær þar sem hún sakaði leikstjórann um kynferðislega áreitni. Hún sagðist gera það eftir að hafa fengið innblástur frá öllum þeim konum sem hafa látið í sér heyra á netinu.

„Það var ekki tilfellið,“ segir von Trier í samtali við Jyllands-Posten.

„Við vorum óvinir, það er staðreynd. Hins vegar gaf hún einn besta leik sem hefur sést í mynd eftir mig.“

Kemur það á óvart að Björk stígi fram með þessar ásakanir á þessum tímapunkti?

Sjá einnig: Björk stígur fram og segir frá kynferðislegri áreitni Lars von Trier

„Hún hefur ekki gert annað en að kvarta undan mér, svo að nei.“

En tengdust kvartanir hennar því að þú áreittir hana?

„Það er ekkert til í þessari frásögn. Farðu til baka og skoðaðu upplýsingarnar sem komu þá fram. Samstarfið var einn stór ágreiningur. Ég gerði þetta ekki.“

Mikið hefur verið fjallað um kynferðislegt ofbeldi innan kvikmyndaheimsins að undanförnu en á síðustu dögum hafa á þriðja tug kvenna stigið fram og lýst kynferðislegu ofbeldi af hendi kvikmyndaframleiðandans þekkta Harvey Weinstein. Meðal þeirra eru þekktar leikkonur eins og Ashley Judd, Angelina Jolie, Gwyneth Paltrow og Rose McGowan.

Björk var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir lagið I´ve Seen it All sem var í myndinni Dancer in the Dark, en tilnefningu hlaut hún ásamt Lars von Trier og Sjón sem sömdu texta lagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×