Handbolti

Mótherjar FH búnir að kæra leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson og félagar í FH tryggðu sér sæti í 3. umferð EHF-bikarsins í gær.
Ásbjörn Friðriksson og félagar í FH tryggðu sér sæti í 3. umferð EHF-bikarsins í gær. vísir/ernir
St. Petursburg hefur kært framkvæmd leiks liðsins gegn FH í 2. umferð EHF-bikarsins í gær til evrópska handknattleikssambandsins. Frá þessu er greint á mbl.is.

St. Petursburg vann leikinn í gær 32-27, með sömu markatölu og FH vann fyrri leikinn. Staðan var því jöfn samanlagt, 59-59.

Samkvæmt reglum EHF hefði þá átt að grípa til vítakastskeppni til að knýja fram úrslit. Í stað þess var farið í framlengingu sem FH-ingar unnu, 6-5, og komust því áfram, samanlagt 65-64.

Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, sagði í samtali við mbl.is að finnski eftirlitsmaðurinn hefði tekið það fram á tæknifundi fyrir leikinn að ef staðan yrði jöfn eftir venjulegan leiktíma yrði farið í tvær framlengingar og svo vítakeppni.

Að sögn Ásgeirs ræddi eftirlitsmaðurinn við dómarana eftir leikinn í gær og eftir nokkra reikistefnu var ákveðið að fara í framlengingu.

„Mér skilst að það sé þrennt í stöðunni. Að leikurinn verði spilaður aftur, að það verði vítakeppnin eins og sér eða að úrslitin verði látin standa,“ sagði Ásgeir.

Dregið verður í 3. umferð EHF-bikarsins á morgun.


Tengdar fréttir

FH áfram þrátt fyrir tap í Rússlandi

FH er komið áfram í þriðju umferð undankeppni EHF keppninnar í handbolta þrátt fyrir 37-33 tap gegn St Petersburg í framlengdum leik í Rússlandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×