Viðskipti innlent

Sjö milljónir farþega farið um Keflavíkurflugvöll í ár

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hjónin voru leyst út með gjöfum við komuna til Íslands.
Hjónin voru leyst út með gjöfum við komuna til Íslands. isavia
Sjö milljónasti farþegi ársins fór á dögunum um Keflavíkurflugvöll en hann kom til landsins frá Belfast með EasyJet. Starfsfólk Isavia fagnaði þeim Chris og Joanne Bradley og voru þau leyst út með gjöfum á Keflavíkurflugvelli.

Í tilkynningu frá Isavia segir að hjónin hafi verið afar ánægð með móttökurnar og kváðust spennt að upplifa öðruvísi frí en að liggja á sólbekk við sundlaug.

„Þau eru á leið í ferðalag um Ísland í fjóra daga og ætla sér að fara Gullna hringinn og í Bláa Lónið auk þess sem þau vonast til þess að sjá norðurljósin.

Talning farþega um Keflavikurflugvöll skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þegar sjömilljónasti farþeginn fór um völlinn skiptist farþegafjöldinn svona: 2.253.992 brottfararfarþegar, 2.319.489 komufarþegar og 2.426.519 skiptifarþegar. Á síðasta ári náði farþegafjöldinn 6,8 milljónum en í ár er búist við að fjöldinn verði um 8,7 milljónir og því verður bæði fagnað núna þegar sjö milljóna múrnum er náð og einnig þegar fjöldinn fer yfir átta milljónir í desember næstkomandi.

Fjölgun farþega hefur verið mjög hröð um Keflavíkurflugvöll síðastliðin ár og samkvæmt farþegaspá Isavia verður fjöldinn í ár 28% meiri en árið 2016. Þá munu ríflega fjórfalt fleiri ferðast um flugvöllinn í ár en árið 2010,“ segir í tilkynningu Isavia.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×