Enski boltinn

Mancini öskraði á sjúkraþjálfarann á hverjum degi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mancini gerði Man City að Englandsmeisturum 2012.
Mancini gerði Man City að Englandsmeisturum 2012. vísir/getty
Roberto Mancini leiddi Manchester City til fyrsta Englandsmeistaratitils félagsins í 44 ár árið 2012 og er dáður af stuðningsmönnum félagsins. En hann lenti upp á kanti við alla leikmenn og starfsmenn félagsins, segir írski markvörðurinn Shay Given.

Given gaf nýverið út sjálfsævisögu sína og segir þar frá því hvernig var að vinna með Mancini á bak við tjöldin.

„Ég gat ekki áttað mig á Roberto Mancini. Hann lenti upp á kanti við alla. Og þegar ég segi alla, meina ég alla,“ skrifar Given í bók sinni.

„Leikmennina, sjúkraþjálfarana, búningastjórann, fjölmiðlafulltrúana, fólkið í mötuneytinu, starfsmenn bílastæðisins, alla.“

„Á hverjum einasta morgni sat hann á þrekhjóli og sjúkraþjálfarinn kom til hans og tilkynnti honum ástandið á leikmannahópnum. Og það hóf þriðju heimsstyrjöldina hvern einasta dag.“

„Sjúkraþjálfarinn kom með hefðbundinn lista yfir hverjir væru í standi og hverjir ekki, og reiði hans braust út. Sakaði sjúkraþjálfarann um að vernda leikmenn sem voru í raun heilir eða ekki koma meiddum leikmönnum í stand nógu fljótt.“

„Hvernig nær það því besta fram úr fólki? Lífið á ekki að vera svona erfitt,“ skrifaði Shay Given.

Mancini er nú við stjórnvöllinn hjá Zenit St Petersburg í Rússlandi, en hann stýrði liði Manchester City á árunum 2009-2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×