Lífið

Alexandra lét lokkana fjúka fyrir góðan málstað

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Alexandra Sif Herleifsdóttir hafði með sér góða vinkonu sína þegar hárið var rakað af í dag.
Alexandra Sif Herleifsdóttir hafði með sér góða vinkonu sína þegar hárið var rakað af í dag. Vísir/Eyþór
„Ég ákvað bara að láta vaða,“ segir Alexandra Sif Herleifsdóttir en hún hefur síðustu vikur safnað fyrir samtökin Útmeð‘a. Alexandra hafði lofað Snapchat fylgjendum sínum því að ef söfnunin næði yfir 300.000 krónur myndi hún raka af sér hárið. Markmiðinu var náð svo í dag fengu fallegu lokkarnir hennar að fjúka.

„Ég er sjálf búin að vera að glíma við sjálfsvígshugsanir. Eftir að ég varð vitni af því þegar einstaklingur framdi sjálfsvíg síðasta sumar, opnaði ég mig um það inni á Snapchat. Í kjölfarið hafði hafði ein sem vinnur hjá Geðhjálp samband við mig og sagði mér frá Útmeð’a.“

Alexandra vildi vekja athygli á því hversu mikilvægt það er fyrir fólk sem upplifir sjálfsvígshugsanir að leita sér hjálpar eða finna einhvern til þess að tala við. Henni fannst þetta málefni henta söfnuninni mjög vel. Það eru Geðhjálp og Hjálparsími Rauða krossins 1717 sem standa sameiginlega að forvarnarverkefninu Útmeð’a. Markmið verkefnisins var að stuðla að bættri geðheilsu meðal almennings með því að hvetja fólk, með sérstakri áherslu á ungt fólk, til að tjá sig um andlega líðan sína og leita sér faglegrar aðstoðar þegar á þarf að halda.

Alexandra fékk hárgreiðslukonuna sína til þess að aðstoða sig við verkefnið. Vísir/Eyþór

Hárið fer í hárkollur fyrir börn

„Ég er komin með rúmlega 320.000 krónur. Markmiðið var að safna 300.000 krónum og þá myndi ég raka af mér hárið, ég náði því á miðvikudaginn. Það hægðist þá aðeins á söfnuninni þegar markmiðinu var náð en vonandi eiga fleiri eftir að styrkja söfnunina.“

Klukkan eitt í dag lét Alexandra Sif raka allt hárið af sér á hárgreiðslustofunni Space í Kópavogi en hún og gefur hún hárið í annað flott málefni. Með henni í för var Snædís Lilja dóttir bestu vinkonu hennar.

„Ég á litla fjögurra ára vinkonu sem er með alopecia sjálfsofnæmissjúkdóm sem kom með mér í dag. Hún er ekki með neitt hár svo móðir hennar sagði henni frá þessu. Henni fannst þetta ótrúlega spennandi svo hún vildi vera viðstödd. Ég ætla svo að gefa hárið til samtaka sem gera hárkollur fyrir lítil börn.“

Alexandra er ótrúlega ánægð með það hversu vel söfnunin gekk. Vísir/Eyþór

Margir að upplifa það sama

„Ég er að þessu til þess að minna fólk á að það er allt í lagi að líða illa. Fyrsta skrefið í átt að bata er að tala við einhvern, til dæmis bara einhvern náin vin eða fjölskyldumeðlim. Það er svo mjög gott að leita sér aðstoðar þegar þetta er orðið að vandamáli. Það er ekki eðlilegt ástand að vera með sjálfsvígshugsanir og það er fólk þarna úti sem er tilbúið að hjálpa. Það er líka mikilvægt að muna að það er fólk þarna úti sem er að upplifa það sama. Ég veit að margir hugsa að þeir séu einir en það er ekki þannig.“

Sjálf segir Alexandra að hún hafi ekki verið á stað til þess að tjá sig um sín andlegu veikindi á sama tíma á síðasta ári. Hún er nú búin að vinna í sjálfri sér síðustu mánuði og líður mun betur í dag. Hún var sjálf lengi að átta sig á því hversu alvarlegt eigið þunglyndi væri og leitaði sér því ekki aðstoðar strax.

Hárið verður notað í hárkollugerðVísir/Eyþór

Hélt að þunglyndið væri bara tengt álagi

„Ég var sjálf undir miklu álagi í skóla og hélt að þetta væri bara tengt því. En svo flutti ég til útlanda eftir námið en þunglyndið varð ekki eftir á Íslandi, það fylgir með manni ef maður vinnur ekki í sínum málum.“

Alexandra er íþróttafræðingur og opnaði Snapchat aðganginn lexaheilsa til þess að fræða fólk um líkamlega heilsu. Hún hefur þó einbeitt sér meira að andlegu hliðinni og fengið mikið lof fyrir.

„Líkamleg og andleg heilsa tengjast órjúfanlegum böndum.“

Á heimasíðu verkefnisins Útmeð’a kemur fram að á bilinu 500 til 600 manns leita sér aðstoðar á heilsugæslustöðvum og í sjúkrahúsum á Íslandi vegna sjálfskaða í kjölfar vanlíðanar á hverju ári. Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi.



Flottar vinkonur - Alexandra og Snædís á hárgreiðslustofunni í dagAlexandra
„Ég er í smá spennufalli núna. Þetta er líka flottara en ég þorði að vona,“ sagði Alexandra í samtali við Vísi eftir að hárið fékk að fjúka í dag.

 

 

Söfnunarreikningur Alexöndru er ennþá opinn:

Reikningur: 130-05-063080

Kennitala: 021089-2069

Kass: 6625892






Fleiri fréttir

Sjá meira


×