Skoðun

Að þeir fái mest sem helst þurfa

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar
Það er í rauninni alveg einboðið að þeir flokkar sem lofa 100 þús. frítekjumarki eða algjöru afnámi frítekjumarks á allar tekjur ellilífeyrisþega eru dæmdir til að svíkja það loforð eða í besta falli varpa því yfir á næstu ríkisstjórn að þurfa taka frítekjumarkið niður aftur eða koma því aftur á.

Það er þó lyginni líkast að kosningabaráttan virðist eiga að ganga út á það að það séu bara aldraðir sem fái greiðslur í almannatryggingakerfinu. Öryrkjar hafa þar algerlega gleymst.

Öryrkjar voru að vísu ekki með í því samkomulagi sem stjórnvöld og hagsmunasamtök eldri borgara gerðu fyrir nokkrum misserum um fyrirkomulag almannatrygginga, en þeir nutu þeirra kjarabóta um margt. Og auðvitað eiga öryrkjar að njóta sömu réttinda og eldri borgarar hvað varðar greiðslur bóta úr almannaryggingakerfinu.

Eins og dæmið lítur út í dag, þá kostar það ríkissjóð 10-12 milljarða króna að hækka frítekjumarkið í 100 þúsund kr. á allar tekjur aldraðra. Sú tala mun svo hækka í stórum stökkum næstu árin. Bæði vegna þess að ellilífeyrisþegum mun fara fjölgandi auk þess sem hlutfall þeirra sem hafa góð lífeyrissjóðsréttindi mun aukast gríðarlega á næstu árum. Algjört afnám frítekjumarka á allar tekjur mun svo kosta margfalt það sem hækkunin upp í 100 þús. kostar og margfaldast með sama hætti og greint er frá hér að ofan.

Það er hins vegar sjálfsagt réttlætismál að fólk fái að vinna eins lengi og heilsa og áhugi leyfir. Hækkun frítekjumarks í 100 þús. kr. á atvinnutekjur kostar 1,2 milljarða á ári og að óbreyttu um 2 milljarða kr. að hafa ekkert frítekjumark.

Það er heillavænlegast að þegar frítekjumark atvinnutekna hefur verið hækkað eða tekið út, að það svigrúm, sem kann að vera fyrir hendi til að hækka önnur frítekjumörk, verði frekar nýtt til þess að hækka grunnlífeyri aldraðra og öryrkja .

Þá fá allir eitthvað og mest þeir sem mest þurfa.

Höfundur er í 12. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður.




Skoðun

Sjá meira


×