Handbolti

Jicha búinn að leggja skóna á hilluna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stórskyttan magnaða Filip Jicha tilkynnti í stórskemmtilegu myndbandi í dag að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna.

Meiðsli hafa leikið hann grátt síðustu ár og í sumar varð ljóst að hann myndi ekki halda áfram að spila með Barcelona. Við það tækifæri sagðist hann ætla að leggjast undir feld og íhuga hvað hann ætlaði sér í að gera í framhaldinu.

Nú hefur Jicha sætt sig við að hann getur ekki haldið áfram. Því er hann búinn að henda skónum upp í hillu.

Jicha er 35 ára gamall og átti magnaðan feril. Hann var valinn besti handboltamaður heims árið 2010. Hann var á mála hjá Lemgo frá 2005 til 2007. Þá fór hann yfir til Kiel þar sem hann spilaði með liðinu sín bestu ár á ferlinum til ársins 2015.

Þá fékk hann leyfi til þess að ganga í raðir Barcelona. Jicha grátbað um að fara þar sem hann væri illa staddur fjárhagslega eftir að hafa farið illa út úr fasteignabraski. Hjá Barcelona átti hann að fá betri laun. Eftir nokkuð japl, jaml og fuður fékk hann að fara í sólina á Spáni.

Jicha var mikið meiddur þann tíma sem hann spilaði með Barcelona og náði aldrei að sýna sitt rétta andlit hjá félaginu.

Myndbandið skemmtilega má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×