Innlent

Gefa ekki upp bónusa til landsliðsmanna vegna HM fyrr en 2018

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. vísir/anton
KSÍ mun ekki upplýsa fyrr en í ársuppgjöri sínu hvað leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu fá í bónusgreiðslur fyrir að komast á lokamót HM í knattspyrnu á næsta ári.

Ísland tryggði sér sæti á HM í Rússlandi og fylgdi þar eftir glæsilegum árangri sem skilaði liðinu á EM í Frakklandi.

Upplýst var um það í sérstöku rekstraryfirliti á ársþingi KSÍ í febrúar síðastliðnum að greiðslur til leikmanna og þjálfara vegna EM námu 846 milljónum. KSÍ fékk þá alls rúma 1,9 milljarða króna frá UEFA í þátttöku- og árangurstengdar greiðslur og rann því nærri helmingurinn af því í vasa leikmanna og þjálfara í formi bónusgreiðslna sem samið hafði verið sérstaklega um.

Vísir fjallaði í ársbyrjun ítarlega um bónusana og viðræður leikmanna við KSÍ þeim tengdar. Kom þar fram að viðræðurnar hefðu dregist á langinn og að skipting greiðslna hefði valdið ósætti.

Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ liggur líka fyrir samkomulag um bónusgreiðslur fyrir HM. FIFA hefur gefið út að styrkir til knattspyrnusambanda þátttökuþjóða verði hækkaðir frá HM 2014 í Brasilíu en hversu mikið liggur ekki fyrir. Styrkirnir hafa skipst í undirbúningsgreiðslu, greiðslu fyrir þátttöku í riðlakeppni og svo árangur í útsláttarhluta keppninnar. Áætlað hefur verið að samböndin fái nú um tvær milljónir dala í undirbúningsgreiðslu og tíu milljónir fyrir að komast í riðlakeppni lokamótsins. Alls um 1,2 milljarða króna. Hversu stór skerfur af þeirri upphæð fer til leikmanna KSÍ er ekki gefið upp.

„Við birtum þessar árangurstengdu greiðslur í ársuppgjöri. Við gerðum það síðast og sá verður hátturinn á aftur og ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um annað,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ. Umræða um bónusa bíði betri tíma. Undir það tekur Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.

„Við erum með samning í gangi og erum að fara yfir þessi mál og ná utan um þetta. Þessi staða er nýkomin upp og ekki verið fjallað um málið í stjórn.“

Ef sami háttur verður hafður á og síðast mun að óbreyttu ekki skýrast hversu ríkulega landsliðshetjurnar fá launað fyrir afrekið að komast á HM fyrr en í ársbyrjun 2019.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×