Skoðun

Fátækt er pólitísk ákvörðun

Vilborg Oddsdóttir skrifar
Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem er að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Vonandi næst þetta markmið, þó ekki væri nema að því marki að engin börn búi við fátækt.

Samkvæmt Hagstofu Íslands bjuggu árið 2015 um 1,3 prósent landsmanna eða um 4.300 manneskjur við verulegan skort á þeim lífsgæðum sem þykja eðlileg í íslensku samfélagi, svo sem að geta staðið í skilum á greiðslum fyrir húsnæði og lánum, geta haldið húsnæði heitu, geta farið í a.m.k. vikulangt frí með fjölskyldunni árlega, haft efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltið annan hvern dag,  geta mætt óvæntum útgjöldum, hafa efni á síma, sjónvarpstæki, þvottavél eða bíl.

Gögn Hagstofunnar sýna fram á að heilsufar, staða fólks á húsnæðismarkaði sem og heimilisgerð hafi töluvert forspárgildi um sára fátækt. Þannig leiðir bág heilsa og örorka til lágra ráðstöfunartekna sem setur fólki þröngar skorður á húsnæðismarkaði. Sama á við um einstæða foreldra og þá sem búa einir. Niðurstaða Hagstofunnar er líka skýr um það að sár fátækt er tíðari á meðal leigjenda en húsnæðiseigenda. Það liggur því í augum uppi að grípa þarf til almennra aðgerða á húsnæðismarkaði og að tryggja þarf aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Hugarfar og þekking skiptir miklu máli þegar finna skal lausnir. Hugarfar sem mótast af því að sjá möguleikana í stað glataðra tækifæra, styrk hverrar manneskju í stað veikleika, að taka ábyrgð í stað þess að firra sig henni, að sjá hvert maður vill komast og finna svo leiðina þangað.

Forgangsröðum fyrir börnin okkar

Við þurfum skýra stefnu og sértækar aðgerðir í þágu fólksins sem býr við þannig aðstæður að það getur ekki óstutt tryggt börnum sínum þau lífsgæði sem þykja sjálfsögð á Íslandi. Við erum ríkt samfélag af efnislegum gæðum. Sértæku aðgerðirnar krefjast fjármagns og því verðum við að forgangsraða í þágu barnanna okkar allra.

     

Þekking og skilningur hvers einstaklings á sjálfum sér, getu, hæfileikum, rétti og stöðu skiptir miklu máli.   Með því að auka aðgengi þeirra sem búa við fátækt að þeim sem taka ákvarðanir er hægt að taka þau skref sem til þarf til að útrýma fátækt á forsendum þeirra sem við hana búa.  Einnig skiptir miklu máli að úrræði velferðarþjónustunnar byggist á viðhorfum þar sem horft er til styrkleika, gæða og réttar í stað vanmáttar, skorts og ölmusu.

Að styðja við og bæta stöðu fjölskyldna styrkir stöðu barna. Að rjúfa einangrun foreldra styrkir stöðu barna. Að styrkja menntun ungmenna er grundvallaratriði gagnvart því rjúfa vítahring fátæktar. Við verðum að tryggja að að öll börn njóti heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Efla þarf upplýsingagjöf um íslenska velferðarkerfið til fólks af erlendum uppruna.

Við verðum að forgangsraða fjármunum í félagslega innviði, aðeins þannig náum við því markmiði að útrýma fátækt þannig að ekkert barn á Íslandi þurfi að búa við þær aðstæður.

Höfundur er félagsráðgjafi og skipar fimmta sætið á lista Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Sjá meira


×