Skoðun

Enn einu sinni: Fátækt er ekki aumingjaskapur!

Ásta Dís Guðjónsdóttir og Laufey Ólafsdóttir skrifar
Fátækt er ekki persónueinkenni heldur lýsir hún félags- og efnahagslegum aðstæðum sem einstaklingur býr við. Fólk sem býr við fátækt er jafn megnugt og aðrir í samfélaginu. Það þarf hins vegar að fá tækifæri til að sýna hvað í því býr og fá að standa jafnfætis öðrum.

Fátækt á Íslandi er staðreynd en ástæður hennar virðast ekki öllum ljósar því margir vilja kenna óreglu, leti eða öðru því sem kenna má þolanda fátæktarinnar sjálfum um, þannig er auðvelt að þvo hendur sínar af samfélagslegri ábyrgð.

Fólk í fátækt getur ekki staðið undir skömminni sem almennt viðhorf um ástæður hennar hefur í för með sér, það gæti enginn. Raunveruleikinn er sá að fátækt er ekki aumingjaskapur heldur bein afleiðing kerfislægrar mismununar og pólitískra ákvarðana sem ætti að vera í hag samfélagsins að breyta.

Almenn samfélagsumræða um fátækt á það hins vegar til að vera yfirborðskennd og takmörkuð. Hún snýst mest um kostnað við að halda uppi velferðarsamfélagi sem er samfélagsleg ábyrgð okkar allra en minna um raunverulegar ástæður fátæktarinnar og afleiðingar hennar fyrir einstaklinga og samfélag.

Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt, eru samtök okkar sem búum við eða höfum búið við fátækt. Við stöndum fyrir alls kyns uppákomum til að efla hvert annað til dáða, til þess að þrýsta á um virkt notendasamráð í félagslegri þjónustu, til að fræða almenning um samfélagsmál og þar með talið ástæður fátæktar og margt fleira. Í stuttu máli vinnum við saman af því að við krefjumst þess að á okkur sé hlustað! Starfið gengur vel en við leitum að leiguhúsnæði undir starfsemina svo opna megi miðstöð fólks í fátækt með það að markmiði að koma fólki í virkni og koma í veg fyrir félagslega útilokun.

Sem samfélag verðum við að taka mið af réttindum allra einstaklinga til virkrar þátttöku í samfélaginu en fátækt er andleg og efnisleg hindrun slíks. Þegar fólk getur nýtt hæfileika sína í leik og starfi er það samfélaginu öllu til góðs.

Á alþjóðabaráttudegi gegn fátækt, 17. október.



Höfundar eru samhæfingarstjórar samtakanna Pepp Ísland.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×