Innlent

Björt framtíð fordæmir lögbann sýslumanns á fréttaflutning Stundarinnar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jón Trausti Reynisson er ritstjóri Stundarinnar.
Jón Trausti Reynisson er ritstjóri Stundarinnar.
Björt framtíð lýsir þungum áhyggjum af stöðu lýðræðis í landinu í kjölfar þess að lögbann var sett á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media byggðan á gögnum frá Glitni. Flokkurinnn segir að þar hafi verið hindruð miðlun upplýsinga er varða almannahag þar sem um er að ræða fréttaflutning af tengslum stjórnmálafólks og viðskiptalífs.

„Fyrir réttum mánuði síðan tók stjórn Bjartrar framtíðar ákvörðun um ríkisstjórnarslit, í kjölfar trúnaðarbrests og leyndarhyggju þar sem flokkurinn sem fór með forsætisráðuneytið varð uppvís að eiginhagsmunagæslu á kostnað fólks í viðkvæmri stöðu, þolenda ofbeldis,“ segir í tilkynningu frá flokknum.

Flokkurinn lagði fram frumvarp þingveturinn 2014-2015 um vernd uppljóstrara og miðlun upplýsinga en frumvarpið var ekki samþykkt. Í tilkynningu segir að brýnt sé að þeir sem uppljóstri um spillingu njóti efnahagslegrar og félagslegrar verndar sem og verndar gegn málsóknum.

„Spilling skilgreinist sem misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings. Mikilvægt er að vernda þá sem uppljóstra um misgerðir sem varða almannahag. Björt framtíð mun áfram berjast fyrir því að tryggja vernd uppljóstrara í íslenskum lögum.“

Flokkurinn fordæmir „það gríðarlega alvarlega inngrip í fjórða valdið, starfsemi fjölmiðla og þar með aðhald með stjórnmálunum, sem felst í lögbanni því sem sett hefur verið á fréttaflutning fjölmiðlanna Stundarinnar og Reykjavík media um fjárhagsleg og viðskiptaleg hagsmunatengsl stjórnmálamanna sem almenningur á rétt á að vera upplýstur um.“

Þá segir í tilkynningu að sérlega alvarlegt hljóti að teljast að binda hendur fjölmiðla í aðdraganda alþingiskosninga, ekki síst í ljósi þess að afleiðingar lögbannsins munu vara fram yfir kosningar.


Tengdar fréttir

Umfjöllun um gögn frá Glitni var ekki lokið

Lögbann var í gær lagt við fréttaflutningi Stundarinnar sem reistur er á gögnum innan úr Glitni frá því fyrir hrun. Ritstjórinn segir að ekki hafi verið lokið við umfjöllun byggða á gögnum innan úr Glitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×